Færsluflokkur: Bloggar

Veður

Síðustu færslur hafa snúist um veður og snjódýpt. Frekar þurrt en þarft. Veðrið hefur verið tjáningarform íslendinga í margar aldir. Við tjáum tilfinningar, stjórnmálaskoðanir og ást með því að tala um veðrið. Líka sínum við stuðning, linum sorgir annarra og hundsum líka með tjáningu.

Þegar ég var ung Tounge að árum þá var í sveitinni minni sveitasími þar sem öll sveitin og næsti dalur var á sömu línunni. Var þá hægt að "hlusta" símtöl sveitungana. Auðvitað var þetta óspart notað, og hafði hvert heimili sína tækni við að hlusta á símtölin án þess að trufla eða koma upp um sig. Mamma hafði t.d. lag á að skjóta hökunni ofan í taltrektina, þannig að ólætin í okkur systkinunum bærist ekki um sveitina.

Maður var ekki hár í loftinu þegar maður fór að taka upp tólið og aðeins að hlera. Alltaf hófust símtölin á veðurlýsingu. Þótt sama veðrið ríkti fram í Hrauni og niður á Grund, þá skiptust Dísa og Rúna alltaf á veðurlýsingu í upphafi símtals. "þegar ég kom hérna fyrir húshornið þá ætlaði hann bara að skella mér" sagði t.d. Dísa, hver? jú HANN,  líklega veðurguðinn. "Hvaaaað ertu að segja" sagði þá Rúna og lagði áherslu á Hvað og skipti líka um tóntegund í orðinu. þar á eftir fylgdi frásögn af snúruferð þar sem hann, sá sami og var nærri búin að skella Dísu, ætlaði að rífa þvottinn úr höndunum á henni. Eftir það fóru fréttir.

Dísa og Rúna voru uppspretta hjá okkur krökkunum að ákveðinni veðurlýsingu sem við kölluðum "saumsprettuveður". það var fallegt veður, helst kvöldsól, en kalt. Þá stóð Dísa á bökkunum á skyrtunni einni saman til að njóta fegurðarinnar, en kuldinn sótti að henni þá tók hún með annarri hendinni skyrtuhálsmálið saman svo reyndi á saumana að aftan, þannig að úr varð saumsprettuveður.

Í símtali karlmannanna fóru þeir frekar út í veðurspár eða hvernig HANN hegðaði sér í andspyrnu við spána í útvarpinu. Þegar veðurlýsingu, og fréttir af færð voru frá áttu þeir bara eitt erindi,Kannski það að samnýta ferð á Flateyri, eða hvað annað sem viðkom fénaði eða búskap, aldrei frekari fréttir af fjölskyldi eða öðrum einkahögum.  það sáu þær um.

svoleiðis var það.


Þannig

Það mætti halda að áhrifa REI gæti hér í veðrinu að minnsta kosti, Það er blindbylur og svo kemur asahláka, og allur snjórinn gerir sig tilbúin til að renna inn um kjallara og önnur neðanjarðarbirgi. Óshlíðin hefur verið lokuð og svo opin og svo lokuð. Þannig er staðan í þessum skrifuðu orðum. Best að hafa það bara svoleiðis þá er ekkert flakk á fólki sem kemur sjálfum sér og öðrum í hættu með þessu flakki.

Fólk hringir hér og vill láta moka hér og þar og svona og hinsegin. Það er eins og einhver sagði "hér búa 904 íbúar og af þeim eru 903 snjómoksturssérfræðingar og þessi 904. er látinn moka" Cool

Væri ekki hægt að gera skýrslu um málið. Líkt og REI og það væri alls ekki öruggt hver væri ábyrgur og hver ætti að víka.

það er svo!


Það er þorri

Eins og allir sem byggja þetta litla land þá er þorratíð. Snjórinn smaug niður um kuldaskóna á leið í vinnu í morgun og ég átti fótum fjör að launa að koma mér undan snjóruðningstækjum og jeppum á röskum gangi til að ná í gegnum skaflanna.

Já fyrir viku síðan var ég í 27 stiga hita út á Tenerife og gekk berfætt á sandölum út í bakarí til að kaupa brauð með morgunkaffinu. Já það var öðruvísi, ekki eins. Nei nei.

... ég að kvarta! hvaða vitleysa. Þetta er allt svipað, bara upplifun á lífinu í mismunandi klæðnaði. Var lengur að klæða mig í morgun heldur en fyrir viku. Svoleiðis er það bara. Svo snýr tunglið rétt hérna, ekki á hvolfi. Ekki það að ég sjái það hérna í snjómuggunni en það er þarna og kemur í ljós í betri tíð.

þannig er það nú bara...


Nú blámar yfir berjamó

Nei kannski ekki alveg. Það er nú bara að líða að þorra. Með sínum eldsúru pungum og sviðum. Það er best að finna til síða föðurlandið svo húsbóndinn geti hoppað á öðrum fæti kringum bæjarhúsið á bóndadagsmorgun í annarri skálminni. Bíddu! hvað ætli hafi verið tilgangurinn, hvernig ætti hann að geta blíðkað þorrann með því háttarlagi. "þögull þorri heyrir þetta harmakvein, gefur grið einn neinn" Sá ógnvænni andi sem fylgdi þessu mánaðartali hér fyrrum hefur alveg misst allt loft. Nú spranga húsbændur og hjú, á stuttbuxum við sólarstrendur suðrænna landa eða geispa fyrir framan tölvuskjáinn hér upp á fróni og gefa þorra greyinu langt nef, og hafa engar áhyggjur hvort stabbinn sé að minnka eða að skipstjórnarmenn æðrist yfir aflaleysinu, það gengur þá ekki á kvótann á meðan.

Breyttir tímar, Við erum komin svo langt frá hörkum heiðarbýlanna og gæftaleysi strandbyggðanna og okkur er nokk sama. Hlutabréfin falla ekki í takt við veðurfar né komu hafíssins. Það skiptir ekki ekki máli inn í kauphöllum landsins hvort lóan kemur eða fer.

Held að þetta sé öfugþróun eða þróunin hafi gengið of langt, ekki vil ég hverfa inn í torfkofanna aftur né róa í dauðann á opnum bát, en komm on..

Það sem skiptir mig máli núna er að stýrivextirnir lækki, krónan styrkist (þarf að kaupa evrur á hagstæðu verði) og hagvöxtur á Vestfjörðum aukist.  Hefur náttúran og veðurfar áhrif á þetta, það er spurning?

 


Nýtt ár, ný markmið

Nýtt ár 2008. Vonandi gleðilegt og næringarýkt fyrir land og lýð. Árið 2007 hefur einkennst af miklum sveiflum/öfgum í veðráttu, pólítík, menningu og efnahagsmálum. Vonandi að verði meiri ró yfir komandi ári.

Bráðum kemur betri tíð, með blóm í haga
sæta lánga sumardaga. 

 Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi, 

einkum fyrir únga dreingi. 

 Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur, 

og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Laxnes


Gleðilega hátíð!

jolatre Elsku þið, Ég sendi ykkur mínar bestu óskir um gleðileg og friðsæla hátíð með þökk fyrir allar skemmtilegar samverustundir sem árið er hnígur brátt í aldana skaut bar með sér.

Stjórnvöld senda kaldann koss

Stjórnvöld gera grín að mótvægisaðgerðum vegna kvótaniðurskurðar. Þau þarna Sjálfstæðis/samfylking samsteypan ákváðu að leggja milljarð í í opinberar byggingar víða um land, þetta átti að vera liður í mótvægisaðgerðum.

Niðurstaðan er þessi.

Bolungarvík, 2 milljónir Crying

Borgarnes 54 milljónir ( vegna kvótaniðurskurðar)

Hvanneyri rúmar 40 milljónir (vegna sjávarafurðarkvótaniðurskurðar) já þið heyrðuð rétt.

Grundarfjörður 2. milljónir, það var álíka mikill niðurskurður þar og hér í Bolungarvík

og svona heldur pistilinn áfram. Þetta er ekki grín þetta er alvara. Það hefur ekkert staðist sem þessar lufsur sem sitja í hásætum sögðust ætla að gera. Grindavík fær rúmar 50 milljónir króna þrátt fyrir að annað atvinnuástand sé mjög á þenslustigi í kringum Grindavík, þó sannarlega var niðurskurðurinn mikill hjá þeim.

Í gær var fjárhagsáætlun fyrir Bolungarvíkurkaupstað samþykkt með miklum halla, bara af því að það á að fara í löngu nauðsynlegar framkvæmdir. Framkvæmdir upp á rúmar 200 milljónir, er það mikið þegar það er verið að gera upp einbýlishús fjármagnseigenda í Reykjavík fyrir helming þessa verðs?

Mér datt í hug þetta í gær þegar mér barst þessar fréttir og við vorum að samþykkjan allan hallann.

Stjórnvöld senda kaldann koss

krónur fáar þaðan.

Mótbyrinn er mæða oss

margann kvelur staðann.

 

Alltaf kemur aftur sól

yfirvöld þó ráða

náum fyrir næstu jól

núllinu löngu þráða.

Allt í lagi að láta sig dreymaCool


Misjafnar jólagjafir

Óskir fólks um jólagjafir eru misjafnar. Bæjarstjórinn í Vesturbyggð vill fá olíuhreinsistöð í jólagjöf og telur sig alla vegna vera farin að sjá í hornið á henni í gegnum gjafapappírinn!

Það er haft eftir honum í fréttablaðinu í gær að hann hafi ekki getað séð nokkurn skapaðan hlut í leyniskýrslu Fjórðungssambandsins sem gæfi tilefni til fyrirstöðu í að olíuhreinsistöð rísi á svæðinu.

Bíddu!

Er bæjarstjórinn í Vesturbyggð búin að sjá þessa skýrslu?? way?

Fjórðungssambandið gaf út eftirfarandi í gær:

Fram kom að sértækar skýrslur um náttúrufar við Hvestu í Arnarfirði og á Söndum í Dýrafirði verða ekki gerðar opinberar að svo stöddu. Aðspurð um ástæðu þess sagði Anna að Fjórðungssambandið og Íslenskur hátækniiðnaður, sem hefur lýst áhuga á byggingu olíuhreinsistöðvar, hafi gert með sér samkomulag um að binda þessar skýrslur trúnaði meðan á undirbúningi stendur vegna þess að efni þeirra nýtist við umhverfismat og fyrirtækið hafi viljað vera í forgangi. Ef Íslenskur hátækniiðnaður hættir við áform sín verða skýrslurnar gerðar opinberar. Fram kom að Fjórðungssambandið hafi lagt 8,5 milljónir undirbúning að olíuhreinsistöð. Framlag Íslensks hátækniiðnaðar er viðskiptahugmyndin. Heimild: http://bb.is/Pages/26?NewsID=109513

Fjórðungssambandinu finnst bara allt í lagi að leggja 8,5 milljónir af almanna fé í einhverja leyniskýrslu fyrir einhverja einkaaðila og hvað svo? Við megum ekki sjá hana fyrr en þeir eru búnir að hafna henni. En hvað um ef að einhver annar stór aðili vill reisa olíuhreinsistöð eða einhvern annan hátækiiðnað á sama svæði?

Síðan bætir formaður fjórðungssambandsins "að boltinn sé nú hjá fjárfestum og forsvarsmönnum Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar. " Mér finnst þessi bolti bara vera ansi stór og hvaða rétt hefur Fjórðungssambandið til að varpa boltanum til þeirra ég bara spyr. Hvað með aðra Vestfirðinga?

Ég segi fyrir mig að Framtíðarjól Vestfirðinga verði bara ekki jafn björt ef hér rís olíuhreinsistöð á Vestfjörðum segi það og skrifa, herra Ragnar bæjarstjóri.

Við fjórðungssamband Vestfirðinga vil ég segja: Viljið þið gjöra svo vel að fara betur með fjármagnið sem þið hafið yfir að ráða eða allavega ekkert breyta því í eitthvað leynimakk!


Menningavitar Vesfirðinga

AfmaelisdagabokMenningaráð Vestfjarða úthlutaði styrkjum sínum í gær hér í Náttúrustofu Vestfjarða. Ég mætti á svæðið og horfði stolt á þegar Sigga í Dal tók á móti 500 þús. fyrir okkar hönd, afmælisnefndar Guðmundar Inga, fyrir m.a. útgáfu á afmælisdagbók sem gefin er út með vísum eftir Guðmund Inga.

Ég er alveg ferlega stolt að þessari bók, sem Guðfinna Hreiðarsdóttir bjó til prentunar var okkar helsti ráðgjafi við útgáfuna. Þau systkinin Ási í Tröð og Sigga í Dal, mega alveg eiga heiðurinn af þeirri vinnu sem hefur verið við að koma henni út þrátt fyrir að ég hafi setið í nefndinni með þeim. Ef Sigga og Ási væru bækur þá myndi ég gefa þau út í mörgum eintökum þau eru svo ósérhlífin og dugleg við að vinna að sýnum áhugamálum og það er bara hreinlega engar brekkur né einstigar sem þau geta ekki fetað til að ná markmiðum sínum. Þeim dettur eitthvað í hug og svo framkvæma þau það, gott fyrri Önfirðinga að eiga þau og alla Vestfirðinga.

Það var úthlutað samtals 20.000.000 króna í ýmis verkefni sem koma til með að styrkja lífíð hérna á Vestfjörðum á komandi árum.

Tónlist, myndlist, leiklist, ritlist, söfn, listaviðburðir allt í bland.

T.d. fékk Guðrún Páls, Sandari með meiru, styrk til að gefa út hljómdisk eða leiðsögu Ipot með myndum. Þetta hugsar hún sér að til að leiðsegja fólki um þorpið á Flateyri. Skemmtileg og góð hugmynd. Guðrún er ein af þessum konum sem lætur sér fátt óviðkomandi þrátt fyrir að vera útgerðarmaður, sjóðmaður, beitingakona og 18 sorta húsmóðir. Hún er í sambandi við allskonar fólk út um allan heim í gegnum mörg skemmtileg áhugamál.

 


Súkkulaðiát

Ég er áskrifandi af heilsupóstinum sem Heilsuhúsið gefur út, í nýjasta pósti stendur orðrétt:

Sætindaát veldur hrukkum

Ný rannsókn bendir til þess að sætindaát stuðli einnig að hrukkumyndun. Í grein sem birtist nýverið í breska tímaritinu British Journal of Dermatology var greint frá því að öll glúkósamyndun í líkamanum stuðlar að öldrun húðarinnar þar sem glúkósi í blóðitengist prótínum og myndar þar með mólekúl sem ganga undir nafninu AGE. Fjölgun AGE mólekúla leiðir hins vegar til fækkunar annarra próteina og þá sérstaklega kollagena og límgjafa sem stuðla aðteygjanleika húðarinnar. Þetta kom fram fréttavef CNN. Húðsjúkdómafræðingurinn Dr. Darren Casey, segir að þó sykurneysla valdi mikilli glúkósamyndun hafi það þó minni áhrif á öldrun húðarinnar en sól og reykingar. Þá ráðleggur hann öllum þeim sem vilja vinna gegn öldrunarmerkjum í húð sinni að neyta andoxunarefna og C-vítamína.

 Ég ákvað að segja þessum leiðinda pósti upp! eruð þið ekki sammála mér? Mér finnst þetta bara leiðindi svona á aðventunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband