Færsluflokkur: Bloggar
6.12.2007 | 09:31
Jólakort
Þá er komið að jólakortunum.
Ég rakst á í blaði Húsasmiðjunnar ýmsan söluvarning sem reynt er að tæla landann með að kaupa. Í mjög smáu letri sem fylgir stendur "ekki er tekin ábyrgð á myndbrengli" þá er átt við að myndin sem fylgir tilboðinu þarf ekki endilega að vera af réttu vörunni, kannski átt við miklu dýrari vöru.
Þá er komið að jólakortunum mínum í ár, í árákvað ég að taka myndir af mér, börnin öll orðin svo stór og neita að sitja fyrir, og barnabörnin svo langt í burtu, svo ég skellti mér bara í uppáhalds undirfötin mín og lét mynda mig fyrir framan tréð sem var "notebene" niður í kjallara þar sem ég var svo hagsýn að geyma tréð frá því í fyrra, enda grunaði mig þennan skort sem ætlar að verða á þessum hríslum í ár.
En ég sendi hugheilar aðventukveðjur til ykkar allra elskurnar mínar og vona að skammdegið dragi ekki alveg fyrir hjá ykkur. Með bestu kveðju frá mér, Halla Signý
ekki er tekin ábyrgð á myndbrengli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.12.2007 | 20:00
Jólasveinn og jólafjárlög
Jólaljósin skína skært og skærar með hverjum deginum núna. Ég tók sérstaklega vel eftir því þegar ég gekk heim úr vinnu í dag. Enda skilaði ég inn fjárhagsáætlun af mér til bæjarráðs sem lagði blessun sína yfir hana, og þá er bara að sjá hvernig bæjarstjórn tekur í hana á fimmudaginn. Ég er bara ánægð með hana, fullt af skemmtilegum framkvæmdum og verkefnum á næsta ári.
Hvað sem niðurrifsraddir segja þá er þó eitthvað að gerast. Þýðir ekkert að leggjast niður og láta mosann gróa og þá verða einu ljósin sem eftir verða, ljósin í kirkjugarðinum, yfir fólkinu sem einu sinni var og vildi vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2007 | 11:03
Himnaríki og helvíti
Morgunn í Bolungarvík.
Óshyrnar bauð mér ekki góðan daginn fyrr en undir hálf ellefu. Éljagangur hefti útsýnið út um eldhúsgluggann. Mér finnst ég ekki ná jafnvægi inn í daginn fyrr en Óshyrnan dregur frá.
Annars kom það ekki að sök hreiðraði mig bara inn í rúmi og lauk við bókina Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman. Hrikalega góð bók, mæli með henni. Hún ku víst eiga að gerast hér í Víkinni og á Ísafirði eða í Plássinu. Lífið hér um þar síðustu aldarmót, þegar fjöllin voru svo há að þau skáru himinninn. Myrkrið á vetrum svo svart og þungt að það þyngdi andadráttinn. Dauðinn svo nálægður að það skildi aðeins einn sjóstakkur á milli lífs og dauða. Rúsínurnar í versluninni svo stórar að þær voru hnefafylli og sætar eins og sykur, sérstaklega fyrir þá sem ekki áttu inneign í versluninni.
Fólk upplifði hér himnaríki og helvíti. Hvað var annað í boði? og býðst eitthvað betra í dag? Hér áður fórnuðu menn lífi sínu og limum og var varla frétt þótt einn og einn kall léti frá sér öndina við barninginn við að ná í þann gula á haf út. Nú er það lög landsins sem slær á fingur fólksins hér við að bjarga sér að nýta sér afurði hafsins. Kannski eins gott, við vorum of ágeng við að halda okkur á lífi.
Himnaríki? helvíti?
Hvorugt, bara allt þar á milli!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2007 | 09:02
Skírn
Ég fór suður til að vera við skírn dóttursonar míns. Það sveif önfirskur blær yfir vötnum.
Drengurinn hlaut nafnið Jóhann Ingi og er Guðmundsson. Hann er nefndur í höfuðið á þeim systkinum á Kirkjubóli, Jóhönnu og Guðmundi Inga. Það var vel til fundið að setja þeirra nöfn saman þar sem þau systkin voru sérstaklega samrýmd og báru bæði virðingu og væntumþykju til hvors annars.
Skírt var í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og var það séra Sigríður K. Helgadóttir, dóttir Ingu Betu systir mömmu sem skírði. Athöfnin var sérstaklega falleg og lagði Sigga ljúfa og fallegan blæ á hana.
Mamma hélt drengnum undir skírn að tilefni þess að þetta er fimmtugasti afkomandi hennar og pabba. Stína og Sverrir langamma/afi voru skírnarvottar.
Á eftir var farið heim og 50 manns úr báðum fjölskyldum þáðu alveg frábæra fiskisúpu að hætti Árelíu frænku sem stóð sig eins og hetja yfir þremur pottum af súpu. Súpan var borin fram með gómsætu heimabökuðu brauði eftir Guðnýju systir. Alltaf jafn gaman þegar fjölskyldan kemur saman.
Allt var þetta yndislegt!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.11.2007 | 13:55
Mamma!
Hún átti afmæli í gær, hún fæddist að Bessastöðum í Dýrafirði 20. nóvember 1923, sem sagt 84. ára í gær. Hún ber aldurinn vel þrátt fyrir að vera búin að ala af sér tólf börn og um daginn eignaðist hún 50. afkomandann. Hún á von á þremur til viðbótar fram á vorið og svo fjölgar sér þetta hratt eftir það og verður eins og poppkorn. Alltaf greinist tréð í fleiri greinar.
Ég er litla stelpan hennar, yngst af þeim sem uppkomust, Hún hefur líka misst þrjú börn tvö í barnæsku og svo Beta systir.
Þrátt fyrir þetta þá er hún ferlega hress, fer flesta daga út á Aflagranda að "hjálpa" gamla fólkinu. Hún stjórnar þar Bingóinu fer í bodsía og spilar á mánudögum. Mamma tekur lífinu ekkert of hátíðlega. Mátulega kærulaus, leggst ekki í rúmið af áhyggjum að óþörfu. Ég ætla að tileinka mér þann hæfilega það er markmiðið.
hennar uppáhalds iðja er að tína ber. Þrátt fyrir að hún treysti sér ekki út úr rúmi þá skal hún í berjamó, Þá stoppar hana ekkert. Skurðir og urðir, lækir og ár. Þetta veður hún yfir ef hún sér berjablámann í fjarska hinumegin.
Einu sinni var ég með henni í berjamó, hún var í nokkrum bratta á Gerðhamradalnum, þá sé ég að hún dettur og rúllar smá spotta og ég sé að hún stendur ekki upp aftur. Svo ég hleyp til, hrædd um að hún hafi meitt sig. " nei takk, ég þarf ekki hjálp" Hún datt sko, beint á berjaþúfu og notaði bara tækifærið að klára af henni áður en hún stóð upp til að athuga um meiðsli.
Það eru helvískir aumingjar sem ekki nenna í berjamó, að hennar sögn, og óvíst að þeir verða að manni. þetta eru verðmæti sem þarf að bjarga. Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Stuldur á týndum berjum er ekkert annað en siðblinda. " Ef þú vilt ber, þá getur þú týnt þau sjálfur" og hana nú. Nema um hvítvoðunga sé að ræða eða farlama öryrkja.
Hún spáir líka í bolla og sér þá ýmislegt, þó aldrei fyrir nákomna en framtíðarsýn ókunnra sér hún oft furðu nákvæmlega. Fyrir afkomendur eru það bara ferðalög og bréf,, sem birtast í bollanum.
Sem barn og unglingur þurfi ég oft að skammast mín fyrir hana, hún er nefnilega svolítið hvatvís, hún hefur ekki lagast með aldrinum en ég aftur á móti þroskast svo ég skammast mín ekki lengur.
En hún segir það sem hún hugsar og það eru oft í veislum að það stendur í einhverjum eftir athugasemdirnar.
Setningar eins og "ég hitti konu um daginn og hún var svo feit að lærin á henni voru eins og brúarstólpar og hún fyllti út í stólinn,, hún var örugglega feitari en þú"!! fær mann til að svelgjast á kaffinu stundum.
"sjáðu konuna þarna, (og bendir) hvað hún er svört" maður reynir að hvísla því að henni að þetta sé dónaskapur og rasismi. " nei! hún getur ekkert að því gert þó hún sé svona greyið" kemur þá, eitt sinn var hún upp á vökudeild fyrir nýbura og sér þá lítið svart barn í súrefniskassa " þau eru nú falleg líka"
En hún er skemmtilega eftirtektasöm, þegar maður var úti að ganga með henni þá sér hún alltaf eitthvað sem maður veitir enga athygli. Vettlingar í götukanti, skemmtilega skrýtið fólk, les líka af öllum skiltum. Líka er hún hafsjór af gömlum sögnum af fólki og viðburðum. Hún er minnug. Enda var hún 10 ára notuð til að fara í hús sem var komið útvarp í svo kom hún heim og endursagði það sem flutt var í útvarpinu. Ég man líka þegar mamma fór í kaupstað, úr sveitinni (alla leið til Flateyriar eða jafnvel Ísafjarðar)eftir heimkomu þá sátu þau pabbi alltaf í eldhúsinu og hún sagði honum sögur og fréttir úr kaupstaðnum, og lék þá líka. Þá var oft gaman að hlíða á.
Skemmtileg kona hún mamma! Til hamingju með aldurinn elsku kerlingin mín.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.11.2007 | 14:20
Afmælisdagbókin komin út
Á síðasta sunnudag var haldið skáldskaparþing í Holti. Vestfjarða-akademían í samstarfi við Afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar efndi til dagskrárinnar. Dagskráin var jafnframt lokahnykkur á viðburðaröð í minningu Guðmundar Inga Kristjánssonar sem hefði orðið 100 ára 15 janúar sl.
Líka var verið að halda upp á útgáfu afmælisdagbókar með vísum eftir Guðmund Inga, og er það afmælisnefndin sem stendur að þeirri útgáfu, í nefndinni með mér voru þau systkinin Sigga í Dal og Ási í Tröð, það má þó taka það fram að þau eiga eiginlega heiðurinn af vinnunni við að gera bókina að veruleika, ég var svona bara í því að samþykkja. Guðfinna Hreiðarsdóttir sagnfræðingur á Ísafirði bjó bókina til prentunar. Ég verð að segja að bókin fór fram úr mínum björtustu vonum. Hún er öll hin glæsilegasta. Bæði prentun, skönnun og myndirnar sem við völdum í hana eru sérlega góðar og gera bókina bæði líflegri og eigulegri. Tilvalin jólagjöf.
Afmælisnefndinn, sem er búin að standa að þremur uppákomum þetta árið í tilefni aldarafmælisins. Fyrst 15 janúar með hátíðardagskrá í Holti, svo hagyrðinga og söngskemmtun 1. apríl á Flateyri og núna síðast að koma þessari afmælisdagbók út og málþingið. Auk þess sáum við um að endurútgefa ljóðaritsafn Guðmundar Inga út aftur "Sóldaga" sem auk þess var með formála um Inga og nokkrum óútgefnum ljóðum efir hann. Þetta var virkilega gaman að starfs með í þessari nefnd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2007 | 11:09
Menning
það er allt að verða vitlaust í menningarlífi okkar, já hvað á ég að segja, Ísafjarðarsýslunga.
Skáldskaparþing í Holti á sunnudaginn kl 16:00, frumsýning á Skuggasveini á laugardag á Ísafirði, Frostrósir eru hérna með tónleika í byrjun desember, og ég búin að kaupa miða.
Núna stendur yfir bókasafnsvika í öllum bókasöfnun, þvílíkur hafsjór að skemmtilegheitum og fróðleik sem þar er að finna. Bara gaman. Jólasveinaleikrit hjá Kómedíuleikhúsinu,, mér finnst það reyndar fullsnemmt á ferðinni, hefði viljað fara í aðventunni.
Svo er framundan margir skemmtilegir tónleikar núna þegar aðventan er að nálgast. ahhh ég má bara ekkert vera að því að föndra jólagjafir fyrir þessi jólin. Ekki svo að það hafi tafið mig sl. jól.
Svo komu bókatíðindin inn um lúguna í gær, þykk af spennandi titlum sem gefa loforð um skemmtileg jól,, já ég ætla sko að nýta mér bókasafnsskírteinið núna í vetur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2007 | 08:06
Vestfirsk skáldskaparþing
Vestfirsku skáldin nefnist dagskrá sem boðið verður upp á í Holti í Önundarfirði sunnudagin 18. nóvember kl. 16:00. Það er Vestfjarða-akademían í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar sem efnir til þessa skáldskaparþings. Boðið verður upp á umfjöllun í tali og tónum um vestfirsk skáld frá ýmsum tímum.
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur mun flytja erindi um Guðmund Inga Kristjánsson. Andrea Harðardóttir mun fjalla um Jón úr Vör og Jakobínu Sigurðardóttur. Fluttur verður fyrirlestur Jónu Símoníu Bjarnadóttur um Steingerði Guðmundsdóttur leikskáldið sem týndist í bókmenntasögunni. Bjargey Ingibjörg Gunnlaugsdóttir mun syngja lög af vestfirskum uppruna. Ólína Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur, mun kveða stemmur við vestfirskar vísur og þulur og fjalla um vestfirsku skáldin.
Dagskráin er helguð minningu Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds sem hefði átt aldarafmæli á þessu ári. Til sýnis og sölu verður afmælisdagabók með ljóðum skáldsins sem kemur út um næstu helgi. Bókina samdi Guðmundur Ingi á árunum 1927-32 og orti ljóð við hvern dag ársins.
Þau eru orðin æði mörg vestfirsku skáldin sem komið hafa við bókmenntasöguna frá upphafi, allt frá Völu-Steini Þuríðarsyni og Þormóði Kolbrúnarskáldi til yngri skálda á borð við Rúnar Helga Vignisson, Vilborgu Davíðsdóttur og Eirík Nordal. Á milli þessara höfunda geymir bókmenntasagan nöfn merkra skálda á borð við Matthías Jochumson, Jón Thoroddsen, Jón úr Vör, Guðmund Hagalín, Jakobínu og Fríðu Sigurðardætur og fleiri og fleiri. Dagskránni er ætlað að minna á þær gersemar sem við Vestfirðingar eigum í íslenskri bókmenntasögu.
Boðið verður upp á kaffiveitingar meðan á dagskránni stendur og er hún öllum opin meðan húsrúm leyfir.
Nánari upplýsingar veitir Ólína Þorvarðardóttir s. 4503070 / 8923131
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2007 | 09:35
Sparnaður og fasteignaverð
Forsætisráðherra vor boðar okkur að nú skuli landinn spara. Til að kæla hagkerfið væntanlega. Sem sagt nú sest ég niður og sauma jólafötin á börnin og föndra jólagjafirnar sjálf. Hvernig skyldi Geir Haarde ætla að spara? skera niður fjárútlát til sveitarfélaga og landsbyggðarinnar.
Rakst á athyglisverða grein eða úttekt úr skýrslu eftir Vífill Karlsson
"Fasteignaverð er lægra á landsvæðum á Íslandi þar sem færri konur búa en karlar, samkvæmt niðurstöðum Vífils Karlssonar hagfræðings en hann greindi frá rannsóknum sínum á ráðstefnu um stöðu og leiðir kvenna- og kynjafræða í Háskóla Íslands um helgina."
ó ó... þarna kom loksins skýringin.
Hann bætir svo við að fasteignaverð sé oft notað til að afhjúpa hegðun neytenda rétt eins og læknar noti blóð til þess að kanna heilsufar sjúklinga.
Já! athyglisvert.
Það hefur verið talað um að fasteignaverð sé lágt hér í Bolungarvík, í Víkinni bjuggu 905 1. desember 2006. hlutföllin 51 % karla og 49 % konur.
Hvernig ber að túlka þetta?, reyndar hefur fasteignaverð farið hækkandi en konum hefur hlutfalslega fækkað því árið 2005 var hlutfallið 50/50. Kannski konur séu ekki eins áberandi!
Ég held að ef skýringar er að leita í kynjahlutfallið á hækkandi fasteignaverði í Bolungarvík er að konur eru meira áberandi og fleiri konur gegna ábyrgðastöðum hérna en árið 2005.
td.
Læknirinn- kona
Lögreglustjórinn- kona
Forseti bæjarstjórnar- kona
Formaður bæjarráðs - kona
Fjármálastjóri bæjarsjóðs- kona
Skólastjóri Grunnskólans - Kona
Skólastjóri Leikskólans- Kona.
Kráareigandinn - kona.
Eigandi helstu verslanna og snyrtistofa -konur
Fjármálastjóri rækjuverksmiðjunnar- kona
Eigendur íbúðagistingar í bænum _ konur
Safnvörðurinn í Ósvör- algjör kelling (segir hann sjálfur í bb viðtali)
Svo er ég örugglega að gleyma einhverri ábyrgðarmikilli konu,,
Konur eru bara flottar í Víkinni og fasteignaverð fer hækkandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 11:16
Komin heim í heiðardalinn-
Komin heim i heiðardalin, án þess að hafa keypt baðker,, fór bara í sturtu í morgun en það gerir sama gagnið, vonandi.
en það var erfitt að skilja þessi eftir Þau koma samt til mín um jólin!
á jólunum er gleði og gaman, fúmm fúmm
þá koma allir krakkarnir í kringum jólatréð, þá mun ríkja gleði og gaman ,, fúmm fúmm fúmm
Yfir hverju hefur maður að kvarta??
Ekki þegar maður á þessi kríli að!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)