Færsluflokkur: Bloggar
30.10.2007 | 09:34
Jólabaðker
Nú er ég stödd í henni Reykjavík. Héldum á stað á fimmtudaginn suður í sumri og 10 stiga hita. Fyrsti vetrardagur var framundan og stóð undir væntingum.
Siggi fór keyrandi heim í gær og var í samfloti með Halldóri sem festi sig þrisvar á Þorskafjarðarheiðinni. Loksins fengu þeir að jeppast.
Það er ekki nóg að veturinn sé runnin hér upp heldur eru jólin að færast yfir borgina. Ég fæ hroll, þetta mikla jólabarn sem ég er þá bara verðum mér um og ó. Fór í Húsasmiðjuna á föstudaginn og ætlaði að versla mér baðker. Frekar ójólalegt nema þá með vísun í jólabaðkerið sem var í jóladagatalsbarnatíma sjónvarpsins hér um árið. Nema hvað, það mátti engin vera að því að afgreiða okkur því afgreiðslufólkið var svo upptekið af því að setja upp jólaskrautið. Ég fór út án þess að kaupa baðkar.
Hér er þenslan í hámarki, við hvert götuhorn birtast stórmarkaðir og það er ekki nóg í 100 þús höfuðborg að hafa tvær eða þrjár Húsasmiðjur, nei það þarf að reisa í hverju hverfi eitt stykki. Hvar eru samlegðaráhrifin? mér er spurn. Mig langar að safna öllu höfuðborgarnáttúrulandsbyggðarmótmælendum saman hérna og halda yfir þeim fyrirlestur. LÍTTU ÞÉR NÆR. Verður yfirskriftin.
Held að þensluáhrif virkjanaframkvæmda séu hjóm móti þessu byggingar,verslunar,kaupæðisbrjálæði hérna á suðvesturhorninu. Þetta er fyrra, ég er búin að vera pirruð yfir þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.10.2007 | 20:00
Ég má til með...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.10.2007 | 10:16
Drengurinn fæddur
Nú var hún Kristín mín dugleg!
Þessi myndalegi drengur fæddist í morgun 08:57. Þannig að nú á ég tvö barnabörn. Sá stutti var að eitthvað að flýta sér. Kristín rétt náði upp á fæðingardeild, Hún og Hjalti börðust í morgunumferðinni frá Hafnarfirði í morgun og voru komin upp á fæðingardeild 08:45.
Hann er 3750 gr og 52 cm. eða 15 merkur
Svona er lífið skemmtilegt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.10.2007 | 20:08
Biblía- bók bókanna
Ég er búin að vera nokkuð hugsi yfir nýju þýðingunni á biblíunni. Ekki það að ég sé búin að lesa hana, frekar en aðrar þýðingar á þessari merku bók. Rétt svona gluggað í í kverin en aldrei lesið hana frá A-Ö.
Nú bar það við um sömu mundir... (vísun í biblíuna) að það er verið að endurútgefa "tíu litlu negrastráka" sem komu fyrst út hér á landi árið 1922. Af hverju fær þessi titill að halda sér. Rasimsi? Negri- ljótt orð og niðrandi, hefur maður heyrt, og ég svo sem alveg sammála því, en?.
En hvað verður næst. Mín biblía er "Sjálfstætt fólk" eftir Laxness. Verður hún kannski endurútgefin eftir 20 ár og þá verður Bjartur í Sumarhúsum gerður að femínista? Hann dýrkaði sauðkindina meira heldur en mannkynið og jafnvel fyrirgaf hann prestinum meira en öðrum mönnum því hann með hrútum sínum orðið mörgum að liði þar sem hans sauðakyn var holdmeira og harðgert en gekk og gerðist.
Nú er ekki einu sinni borin virðing fyrir íslenska kúakyninu. Sænskar kýr eru lang hagkvæmastar ef marka má útreikninga sem bornir voru á borð fyrir hlustendur kvöldfréttanna í kvöld, gætu jafnvel sparað íslenskum bændum heilan milljarð.
En við, bræður og systur, verðum jöfn fyrir guði og mönnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2007 | 22:20
Finnbogi Dagur 15 ára
Þarna er 15 ára piltur á ferð. Finnbogi Dagur fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 14. október 1992, kl 16:10.
litli drengurinn minn er orðin 184 cm, mældi hann í dag. Enda finnst mér ég hafa alltaf minna og minna vægi þegar ég kveð upp raust mína til að undirstrika einhverjar uppeldisreglur. Þá reisir hann sig upp og segir " hvað var það mamma litla"!
hann er mikill húmoristi, alltaf með einhver gullkorn á takteinum. Notar það óspart.
Ein lítil saga af snáða:
Þegar hann var lítill og ég var að kenna honum faðirvorið, fannst honum þetta frekar þurrt og torskilið. Svo hann fór bara með það eins og honum fannst að það ætti að hljóma. Í staðin fyrir að segja "eigi leið þú oss í freistni" sagði hann " eigi geym þú ost í frysti" honum fannst þetta alveg við hæfi svona á eftir daglega brauðinu. Enda alltaf verið matmaður.
Mömmustrákur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.10.2007 | 08:56
Eins og kálfar
Loksins stóð einhver upp!
Mikið rosalega er ég glöð yfir því að það skuli einhver skynsemi ríka ennþá hér á landi. Það er hægt að snúa til baka. Ég var orðin verulega óhress með Björn Inga þarna með íhaldinu i Reykjavík og fannst hann eiginlega vera eins og kálfurinn á þessari mynd:
Tæki bara við því sem að honum væri rétt og þegði við það, en loksins rann af honum víman og hann stóð upp.
Reyndar þarf nýi meirihlutinn að vera í hitakassa á fyrstu dögum sínum. Það má segja að hann hafi fæðst aðeins fyrir tímann og ekki allt tilbúið. En ég treysti alveg þessu fólki, Degi, þótt hann sé samfylkingarmaður og ég tali nú ekki um Svandísi, flott kona vonandi stendur hún á sínu varðandi orkuveituna og Margrét líka flott kona, þótt maður viti ekki hvaða herra hún þjóni, Íslandsfrjálsleyndahreyfingu!
En takið eftir það eru tveir vestfirðingar í meirihlutanum, Björn Ingi og Margrét! þar er nú STÓR plús.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2007 | 21:40
Smalamennska
Margar leiðir og aðferðir eru í boði þeim sem þurfa að fá útrás fyrir reiði eða bældar tilfinningar. Fólki bjóðast dýr námskeið, öskurnámskeið, líkamsræktarkort og fleira, þar sem hægt er að stinga á troðfulla tilfinningaskjóðuna og fá ró í sálartetrið. Það sem ég tel vera nokkuð vanmetið til þessara verka, eru smalamennskur. Nú á haustdögum standa yfir smalamennskur um allt land. Bændur keppast við að laða til sín fótfráa vini og vandamenn til að hlaupa eftir þessum fáeinu skjátum sem enn bjóðast það frelsi að fá að njóta íslensku afréttanna frá fjöru til fjallatoppa.
Þær eru ekki allar sáttar að snúa aftur til lögheimilla sinna, enda vita þær sínu viti að þar bíða þeirra aðeins eitt, að láta frá sér afkvæmi sín svo landinn geti étið til þess eins að hann þurfi að kaupa sér fleiri líkamsræktarkort.
Það að komast í smalamennsku er ein besta og sneggsta leið til að fá ró í sálina, hreyfingu á kroppinn og útrás fyrir innbyggða reiði. Menn geta öskrað, skammast, sagt næsta manni að halda kjafti (að fullum krafti) beðið guð fyrir þann næsta og bölvað óvini í fjarska. Allt sleppur þetta út í náttúruna. Það besta er að engin mengunarkvóti hefur verið settur á allan þennan útblástur sem rýkur upp af manneskjunni við þessar aðstæður.
Setningar eins og "ertu blindur hálfvitinn þinn?" , "kemstu ekki úr sporunum asninn þinn?", "skjóttu hundandskotann" og "ertu þroskaheftur?" hafa flogið og skollið dalanna á milli og endurkastast sem bergmál til sjávar. Öll þessi orð og annar belgingur eru gleymd og horfnar með sunnanrokinu þegar reksturinn kemur saman og sameinast til réttar.
Þá eru menn kátir og reifir, þó nokkrir hundar eigi eftir að gera upp einhver mál sín á milli enda ekki hist, margir hverjir, síðan um síðustu göngur.
Þessi hreinsun dugar mönnum oft langt fram á næsta ár.
Mér finnst að bændur ætti að selja aðgang að smalamennskum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2007 | 11:42
Grjóthrun á Kringlumýrarbraut
Það er víðar grjóthrun en í Hólshreppi!
þetta hlýtur að hafa komið ,,eins og þjófur úr heiðskýru lofti" eins og maðurinn sagði
Grjóthrun á Kringlumýrarbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2007 | 15:28
27. september
27 september, er alltaf stór dagur í mínu lífi.
Pabbi minn átti afmæli þennan dag, hefði orðið 89 ára ef hann hefði fengið að lifa. Skrýtið að hugsa sér hann sem svo gamlan mann, var bráðungur þegar hann dó og ekki orðinn 70 ára.
Hann var fæddur að Brekku á Ingjaldssandi árið 1918, sonur hjónanna Guðrúnu Magnúsdóttur, húsmóður og bónda og Guðmunar Einarssonar, refaskyttu og bónda. Hann var 14. í röð barna Guðrúnar af 17 og 18 í röð bara Guðmundar af 21. Stór Brekkufjölskyldan. Pabbi bjó allan sinn aldur á Brekku og rak þar myndarbú og mannmargt heimili ásamt mömmu, henni Árelíu Jóhannesdóttur. Þegar hann var upp á sitt besta mátti sjá að býlið Brekka var með reisulegri býlum á Vestfjörðum, þetta gat hann samhliða því að koma okkur tíu systkinunum til manns. Tveir bræður mínir dóu í frumbernsku.
Pabbi var mikill náttúruunnandi og útivistarmaður, auk þess sem hann var mikill bókmenntaáhugamaður og sérstakur ljóðaunnandi. Hann sagði mér frá því að þegar hann var ungur maður í Reykjavík, þá til sjós og líka að vinna í landi þá hefði hann keypt allar ljóðabækurnar hans Jóhannesar frá Kötlum og lesið og lært.
Hann átti ekki mikla peninga handa á milli og brá hann á það ráð að kaupa eina bók, lesa hana og læra sem mest af ljóðunum, seldi hana svo aftur og keypti næstu. þannig lærði hann og kunni mikið af ljóðum hans og fleiri skálda. Hann eignaðist svo ekki ljóðasafn Jóhannesar fyrr en hann var sextugur. En hann átti ljóðabækur Davíðs Stefánssonar og líklega hefur hann verið uppáhaldsljóðskáldið hans.
Það voru ekki alltaf til peningar á barnmörgu heimili til bókakaupa.
En það er fleira sem gerir þennan dag hátíðlegan, nú í dag eru 26 ár síðan við Siggi trúlofuðum okkur og 43 ár síðan ég var skírð í Sæbólskirkju.
Líka var oft smalað á Sandi kringum þennan dag og voru það miklir hátíðisdagar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2007 | 17:57
Skemmtilegar fyrirsagir
Þegar ég finn fyrir einhverri depurð eða leiða, þá er það gulltryggt ráð að draga fram eitthvað fréttablaðanna og lesa upp nokkrar fyrirsagnir. Blaðamenn sem vilja draga alla fréttina saman í hnitmiðaðan texta í , velta oft upp skondnum fyrirsögnum eins og á bb.is í dag, "Barnshafandi kona ók á kyrrstaðan vörubíl" hvort var það aðalmálið að konan var barnshafandi eða bílinn kyrrstæður? Það er reyndar fyrir mestu að kona varð ekki barnshafandi við verknaðinn. Sem betur fer slasaðist konan ekki né barnið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)