Færsluflokkur: Bloggar
25.4.2008 | 08:39
Leiksýning
Steinn Steinarr var frábært skáld, hann hefði orðið 100 ára á þessu ári, og það eru 50 ár frá því hann lést. En orð hans og ljóð gilda enn. Fyrsta ljóðabókin sem ég keypti mér var ritsafn Steins Steinars, 16 ára unglingur og nemandi í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Hann segir t.d. á einum stað:
Hin mikla leiksýning var loks á enda. Eins og logandi blys hafði leikur minn risið í hamslausri gleði og friðlausri kvöl, uns hann féll á ný í skoplegri auðmýkt til upphafs síns. Það var lífið sjálft, það var leikur minn. Og ég leit fram í salinn og bjóst við stjórnlausum fögnuði fólksins. En þar var enginn. Og annarleg kyrrð hvíldi yfir auðum bekkjunum. |
Úr bókinni Ljóð. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2008 | 16:32
Víða eru stríðin háð
Það eru víða háð stríð en það er sorglega við þau að aldrei getur sigurvegarinn fagnað lengi, en svona er lífið, og því sagði Steinn Steinar: Nú baðar jörð í blóði, |
Úr bókinni Spor í sandi. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2008 | 10:05
Konur í Bolungarvík
Ég var að glugga í blað sparisjóðsins í Bolungarvík sem var gefið út í tilefni 100 ára afmælis sjóðsins. Þar er viðtal við Sólberg minn gamla yfirmann. Ég kom hingað fyrst árið 1980, 16 ára og blaut á bak við bæði eyrun. Ég var í fjögur ár í vinnu hjá honum og þar lærði ég margt bæði að starfinu og ekki síður að vinna með góðu og skemmtilegu fólki. Sólberg, Steina Annasar og Magga Eyjólfs, skóluðu stelpuna til. Fyrirtækjatryggð var þeirra aðalsmerki, aldrei neikvæð umræða hvorki um sitt nánasta starfsumhverfi eða samfélagið. Það að bjarga verðmætum var jafn nauðsynlegt og draga andann. Til þess að það tækist sem best mátti ekki trufla það með hangsi eða virðingaleysi.
ég gríp niður í viðtalið við Sólberg:
Hlutur kvennanna var mikilvægur á uppgangstímanum í Bolungarvík eftir miðja öldina, kvenfólk fór út á vinnumarkaðinn í auknum mæli, strax og þær voru búnar að koma börnunum upp. Alltaf var verið að tala um að bjarga hráefni og konurnar tóku virkan þátt í því. Það var ekki lítil vinna sem var lögð á herðar þeirra. Þegar atvinnulífið var dauft fyrir sunnan og lítið að gera, þótti sjálfsagt að frændfólkið sendi unglingana hingað. Þeir voru teknir inn á heimilin, endurgjaldslaust og gátu unnið eins og þeir vildu. Margir komust áfram í námi út á þetta.... Þær tóku unglingana inn á heimilin og þjónuðu þeim ásamt eigin börnum samhliða vinnu í frystihúsinu. Vinnan og heimilið gengu fyrir og þær voru ekki að hugsa um heilsurækt eða utanlandsferðir, einsog ungu konurnar í dag. Enn jókst á þeim vinnuálagið þegar togararnir komu. Tekinn var upp einstaklingsbónus og þá bættu þær enn við. Þær fengu aldrei frið. þurftu að vinna alla daga, og hreinlega slitu sér út.
Sólberg skemmtilegur kall
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2008 | 21:44
ferðalag konu
Ég fór á fund á Ísafjörð í dag,, ekki til frásögu færandi, settist upp í minn fjalla jeppa og ók í nákvæmlega 19 mín inn í Orkubúshús á Stakkanesi. Var mætt á stjórnarfund í OV ehf kl 12:00. Með mér er kona frá Tálknafirði í stjórn hún Eyrún Ingibjörg sveitarstjóri. Hún átti að baki heldur lengri ferðalag og ævintýralegri. Að heiman fór hún akandi á Bíldudag, þar fór hún með bát inn í Mjólká, þaðan fóru þeir orkubúsmenn með hana á jeppa eins langt upp í Hrafnseyrarheiðina eins og hægt var, þá fór hún á snjósleða yfir heiðina og labbaði svo rest á móti bíl sem beið og flutti hana lokakaflann til Ísafjarðar.
Sko ég fór á þennan fund í dag,, ekki árið 1974. Þetta eru þær samgöngur sem okkur Vestfirðingum er boðið upp á innan fjórðungsins. Eftir fundinn átti hún von á að komast á bíl alla leið í Mjólká þar sem mokstur á Hrafnseyrarheiði stendur yfir. Enda eins gott því hún átti fund á Tálknafirði klukkan átta í kvöld.
Ég vil efla samstarf innan fjórðungsins, en til þess verður að koma til samgöngubóta, það er alveg eins gott að taka upp samstarf við Hvalfjarðarstrandahrepp eða Fljótin með sömu samgöngur og hérna eru á milli.
Tvöföldum vega og endurnýjun vega í þriðja sinn geta beðið annarsstaðar á meðan við fáum heilsársvegi í fyrsta sinn hérna milli.
Því segi ég að það á að kyrrsetja Bormenn Íslands hérna innan fjórðungsins þegar þeir koma hérna til Bolungarvíkur og láta þá klára eitt og annað. Alla vegna koma því almennilega á koppinn áður en þeir sleppa suður og tvöfalda Hvalfjarðargöngin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.4.2008 | 17:40
Fréttablaðið
Það fer voðalega í taugarnar á mér þegar ég les ambögur í dagblöðum, þrátt fyrir að ég gerist sek um það í mínu daglega málfari og skrifum, þá finnst mér að dagblöðin eigi að vera til fyrirmyndar. Það er greinilegt að það er ekki lagt í það hjá Fréttablaðinu að lesið sé yfir fréttir áður en blaðið fer í prentun enda skal allt gerast á hraða ljóssins.
tökum dæmi úr blaðinu í dag:
"Tvennt slapp óhult þegar sumarbústaður í Miðfellslandi á Þingvöllum brann til kaldra kola í fyrrinótt."
ég fagna því að sjálfsögðu að fólkið slapp, nóg komið að slysaöldunni sem ríkt hefur sl. viku.
líka má sjá i sama blaði: "Fjölskylduráðgjafi segir þörf á mótvægisaðgerðum vegna þess jafnvægisleysis sem skapast hafi með breyttum þjóðfélagsastæðum" er hægt að troða fleiri nýyrðum inn í þessa málsgrein?
ég held ég þurfi á mótvægisaðgerðum að halda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 19:48
Göng og móðir jörð
Stór dagur í lífi Bolvíkinga í gær, því undirritaður var samningur milli ríkis, vegagerðar og verktaka um vinnu við jarðgöng milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Mín skoðun er nú reyndar óbreytt að mér finnst þau vera á vitlausum stað og líka finnst mér þau eigi að heita Óshlíðargöng.
En ég er hætt að tala um þessa skoðun mína, staðsetningin verður ekki breytt meðan ég keyri hér um vegi, og nafnið hlýtur að venjast. Staðreyndir blasa við og við sem eigum erindi hérna á milli munu aka þessa leið hvað sem þeim finnst um nafngift og staðsetningu. Ég er glöð, glöð yfir að þessum áfanga er náð og hlakka til 17. júlí 2010. Þegar ráðherra kemur hingað og klippir á borðann.
Á laugardaginn sl. var sat ég stofnfund Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða. Fundurinn var vel sóttur, og mér fannst vera nokkuð breiður hópur, áhugasamra einstaklinga sem vilja vernda versfirska náttúru og stuðla að sjálfbærri og hóflegri nýtingu hennar, þannig að við getum með góðri samvisku skilað henni til afkomenda okkar.
Eina skepnan sem við þurfum að óttast í þessu sambandi er maðurinn, sem veður oft uppi með eyðingu og slakri framtíðarsýn. Við höfum því miður glatað þeim skilningi sem forfeður og mæður höfðu, því til að lifa af guðs gjöfum verðum við að lifa í jafnvægi og virðingu við móður jörð, án öfga.
Ég vil heldur ekki sjá að Vestfirðir verði friðlýstur þjóðgarður sem engum verður hleypt á nema til sýnist, en til að við eigum skilið að fá að búa hérna þá verðum við líka að haga okkur samkvæmt því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2008 | 20:18
Kartafla
Ég sá það í blaði um helgina að það er ár kartafla. Ég hafði hreinlega ekki tekið eftir því enda eru á mínu heimili allir dagar og ár helgaðir þessu jarðepli. það er keypt 2-4 kíló á viku. Reyndar hef ég meðvitað reynt að minnka þetta kartöfluát á heimilisfólkinu en gengur lítið. Ef mér verður á að hafa ekki kartöflur með matnum þá lítur húsbóndinn upp og spyr "hvar eru kartöflurnar?" þrátt fyrir að það séu nærri 18 aðrar grænmetistegundir á borðinu. Kartafla og Siggi Gummi hafa átt gott líf saman í bráðum 46 ár. Hann hvorki eykur neysluna né minnkar hana þótt Evrópusambandið ákveði að tileinka þessu herrans ári þessari grænmetistegund. Ekki frekar en honum myndi detta í hug að leggja sér rottu til munns þótt það sé ár hennar í Kína. Það er kannski skýring á þessari fíkn því eftir því sem ég heyrði nýlega þá er í kartöflunni að finna níkotin.
Ég bíð eftir því að paprikan fái sitt ár. Þá væri ég búin að fá Evrópubandalagið í lið með mér að koma henni niður í heimilisfólkið. Ég og Guðni Ágústsson erum svo hrifin af papriku og það helst grænni...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2008 | 10:49
Pálmasunnudagur
Í dag er runnin upp pálmasunnudagur skýr og fagur. Toppar þó ekki daginn í gær, í Víkinni var sól í 10 tíma taldist mér, eða frá 8-18. Loksins.
Fór vestur í Önunduarfjörð, já fór vestur, ég segi það alltaf, við Vestfirðingar erum svo áttavillt. Svo þegar ég fór heim aftur, þá fer ég norður.
Nema hvað ég fór til að vera við aðalfund ´Kvenfélags Mosvallahrepps. Mjög gaman að hitta konurnar í sveitinni. Þær eru bara allar svo ferskar og duglegar. Ég hef verið formaður kvenfélagsins í þrjú ár og ætla að vera það alla vegna eitt ár í viðbót. Hélt kannski að þær vildu mig af núna þar sem ég hef ekki verið nógu duglegar að kalla saman fund, en samt vildu þær að ég yrði áfram, höfðu svo sem allar mikið að gera og ekki alltaf tíma sjálfar. En Kolla kom með snilldar hugmynd um að gera alltaf tvær ábyrgar fyrir næsta fundi svo ábyrgðin á hitting, dreifist.
Það komu margar góðar hugmyndir fram m.a. að við myndum gera okkur bloggsíðu, og auðvitað þegar okkur dettur eitthvað í hug eða réttara sagt henni Siggu í Dal þá er það bara framkvæmt og hún er þegar komin í loftið http://kvenfelagmosvallahrepps.bloggar.is/ það á auðvitað eftir að prjóna heilmikið við.
Kvenfélag sem fylgist með tímanum.
Svo fór ég í þriggjaafmælisveislu til hennar Ylfu Mistar, hún lumar nú á ýmsu konan og kemur sífellt á óvart. Td. vissi ég ekki að hún er húsmæðraskólagengin frúin. Hún gifti sig út á Ingjaldssandi, (vissi það nú reyndar), hún er ekki feminsiti, bakar vöpplur úr spelti. Já það er hollt og gott að þekkja Ylfu Mist.
Svo kemur aðalfólkið í dag, Ólöf María og Jóhann Ingi, frumburðinn minn fylgir með. Þetta verða dásamlegir páskar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2008 | 10:36
Blogg
Þetta bogg mitt getur nú varla talist spennandi þegar það líða vikur á milli færslna. En nú gefst stund. Laugardagsmorgnar eru mínar gæðastundir. Ein með kaffibollann og hrotur unglinganna berast út úr herbergjum hússins í takt við gömlu góðu gufuna.
Þegar ég var lítil fékk ég málshátt úr páskaeggi sem hljóðaði svona " morgunstund gefur gull í mund", Mömmu fannst þetta passa mjög vel við mig þar sem ég var alltaf fyrst á dekk á morgnanna.
Ég er svona enn, komin á fætur, mörgum klukkustundum á undan öðrum heimilismeðlimum. Það hefur aðeins einn galla, ég næ aldrei seinnifréttunum í sjónvarpinu því þá er ég farin að draga ýsur.
Á þriðjudagskvöldið hélt ég mér vakandi til kl 00:30 var að horfa á lokaþátt Glæpsins. Hafði farið í bíó á sunnudagskvöldið.
Finnbogi minn kom tvisvar fram til að spyrja mig hvort ekki væri allt í lagi, honum fannst það hlyti að vera þegar hann sá mig fyrir framan sjónvarpið og klukkan orðin svona margt í miðri viku.
En það er af bíómyndinni að segja að hún var yndisleg, Brúðguminn, eftir Baltasar. Mæli mjög sterkt með henni. Full af yndislegum senum bæði dramatískum og kómískum. Ég var farin að troða treflunum upp í mig þar sem ég truflaði næstu bekki.
Annars svona í vikulokin ein pæling.
Lýsi eftir þenslunni í þjóðfélaginu,, hún var á leiðinni vestur á firði (eða svo var lofað) síðast sást til hennar í Brú í Hrútafirði, þar sem hún kolgleypti mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hún er klædd í bláan alfatnað með kratarósina í hnappagatinu og talar sem sunnlenskum hreim.
Þeir sem hafa séð til ferðar hennar eru vinsamlega beðnir um að skila henni til síns heima.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2008 | 16:05
vinnukona
Í gærkveldi nákvæmra kl 19:30 hófust deilur á heimilinu hjá mér. Matartíminn yfirstaðinn og ég fór fram á það við unglingana þrjá á heimilinu að einhver af þeim myndi vaska upp. Nei það var nú ekki alveg auðfengið, hver benti á annan, " sko nú er komið að honum/henni hann/hún hefur sko ekki vaskað upp síðan í síðasta mánuði"
frekar þreytandi
en þá kom tveggja ára snót, sem er í heimsókn hjá ömmu sinni, valhoppandi og klappaði saman höndunum af gleði. " amma ég skal vaska upp fyrir þig" Hjartað á mér bráðnað og lak út á stétt.
Ég mynnist þess nú reyndar að þau þessi sömu unglingar, voru á þessum aldrei voru alltaf til í að hjálpa, alveg þangað til að þau gátu það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)