Færsluflokkur: Bloggar

Breyttur opnunartími

Nú skal sparað. Sparisjóður Keflavíkur hefur boðað sparnað og það felst í niðurskurði á opnunartíma útibúanna á minni stöðunum á Vestfjörðum. Ekkert minnst á uppsögn starfsmanna. Sem þó hlýtur þó að vera meiningin, en það sem fer í fjölmiðla einskorðast bara við það að opnunartími minnkar, en þjónustan helst óbreytt með símaafgreiðslu og netpósti. Frá Ísafirði og Patreksfirði ?!

Auðvitað hljóta uppsagnir á starfshlutfalli að fylgja í kjölfarið, annars yrði enginn sparnaður. Ef ekki þá get ég hugsanlega staðið fyrir utan sparisjóðinn á Flateyri kl 10:00 að morgni og hringt t.d. í Pálfríði sem situr fyrir innan borðið og ég get horft í augun á henni innum um gluggann!. Ég sé ekki sparnaðinn í því fyrir sparisjóð Keflavíkur???

Eins og ég segi alltaf þarf heita vatnið að heita eitthvað.

Aular!


Færeyjar

Færeyjar_2008 051Færeyjar, færeyjingar og færeyska, heilluðu mig alveg upp úr skónum, þegar ég brá mér þangað um sl. helgi. Þessar litlu eyjar með stóru þjóðarsálina. Ótrúlegan sjálfstæðisvilja, og stór hluti þráir að verða sjálfstæður og kljúfa sig frá dönum sem drottna þarna ennþá eins og risi. Reyndar hefur þessi risi mildast mikið og þeir gátu ekki alveg svarað því til hvernig þeir ætluðu upp á eigin spýtur að halda öllu gangandi þegar þeir slepptu af þeim hendinni.

Reyndar þykjast þeir eiga mikla fjármuni hjá þeim og kjallarinn í höllu drottningu yrði frekar snauður þegar þeir væru búnir að sækja þangað það sem þeim tilheyrðu. Það mætti halda úti drjúgu heilbrigðis- vega- og menntakerfi fyrir alla Þá gimsteina sem mætti finna þar.

Ég heillaðist líka af hvað þeir hafa náð að halda í gamlan þjóðararf. T.d. skilja þeir alveg samspil náttúru og manns, og virðast átta sig á að hvor þarf á hinu að halda. Hver fjölskylda á kindur á beit og svo eru þær bara skornar og slátrað heima í bílskúr og þykir engum fásinna að gæsir og sauðfé sé haft á beit inni í miðjum bæ, en auðvitað vel afgirt. Svæðið er bara skipulagt með það í huga. Ekki allt sett í "sér" allt eins og við Íslendingar viljum hafa það. Þéttbýlingar hér mega ekki sjá neitt sem minnir á annað en mannkindina nálægt sér þá fer allt á hvolf.

c_documents_and_settings_anna_heima-b609cf7e8_my_documents_my_pictures_faereyjar_2008_faereyjar_2008_012.jpgMálið líka yndislegt alla vegna fyrir okkur íslendingana, við skelltum oft upp úr. Gávubúðir á hverju horni, hátt gengi dönsku krónurnar kom reyndar í veg fyrir að maður keypti sér neinar "gávur" og svo var sér bílastæði fyrir "bert viðskiptafólk"..... það yrði upplit hér ef það yrði sett upp slíkt skilti við sparisjóðinn. Vona nú að Ásgeir taki ekki upp á því.

 


Fréttir og veður

Það er fátt spennandi í fréttum fjölmiðla þessa dagana, hrun á verðbréfamörkuðum, jarðskjálftar og veðurspáin gengur verðbólguspám á sveif.

Undirmeðvitundin fer á flug og maður er farin að draga úr erminni gömul sparnaðarráð. Heimilisbókhald, visakortið hvílt og dustað rykið af setningum eins og "við höfum ekki efni á því " hætta að líta á það sem árás á sjálfstraustið heldur sem aðgerð sem hefur áhrif á sjóðsstreymið.

ég var orðin svo meðvituð í gær að þegar ég var að brjóta saman þvott og fann götóttan sokk að ég náði í saumaskrínið mitt og hripaði í gatið. Já langt getur maður seilst. Mikið vildi ég eiga spotta sem dugar á fleiri fjárlagagöt sem gapa og blæs í gegnum  Alla vegna kann ég að klastra í sokk, en vantar viðgerðarefnið.

En eitt fékk mig til að skella upp úr þegar ég las blöðin í morgun. Það var að nú er búið að stofna skóla í Reykjavík með einungis 15 nemendum og þykir rosalega framför og nútímalegt. Hugurinn reikaði 10 ár aftur í tímann þegar við foreldrar í Önundafirði rérum lífróðri fyrir skólahaldi í Holti. Þá voru nemendur 15. Við bentum á að skólinn væri mjög tengdur náttúrunni, heimilislegt og rólegt umhverfi, mötuneyti,, (sem þá var ekki til í skólanum á Ísafirði) og mjög persónuleg kennsla. Reyndar voru nemendur á aldrinum 7-14 ára. Við fengum engu að ráða, nema því að við fengum það í gegn að fara með nemendur á Ísafjörð heldur en að vera með börnin á hverjum degi yfir veturinn á Hvílftarströndinni.

Ekki að þessi flutningur gerði svo sem enga slæma hluti og vel var tekið á móti þeim á Ísafirði og við gerum okkur fulla grein fyrir að börnum fór bara fækkandi í sveitinni.

En nú er svona fámennur skóli rekinn undir fínni stefnu sem er Hjallastefnan. Reyndar mjög góð stefna eftir því sem ég hef kynnt mér. En alltaf verður heita vatnið að heita eitthvað.

Já svona er þetta.. upp með bjartsýnina, sannfærð um það að ef okkur tekst að keyra upp bjartsýni og þá verður alltaf betra að lifa,, slökkvum bara á sjónvarpinu og tökum okkur góða bók í hönd. Það kostar ekki mikið og nægt úrval góðra bóka í næsta bókasafni.

 


Free range hænur

Í morgun var ég að hræra mér í skonsur sem ég geri oft og ekki til frásagnar, nema að mér var litið á texta sem var prentaður innan í eggjabakkann. Held ég hafi ekki lagt það í vana minn enda hefur ekki verið um mikla lesningu að ræða þar.

Nema þar stóð: " Velferð hænsna er höfð að leiðarljósi hjá Brúneggjum. Fyrirtækið hefur hlotið vistvæna vottun og má nota merkið vistvæn landbúnaðarafurð á framleiðslu sína. Til að vistvæn vottun fáist er sérstök áhersla á umhverfistengda þætti við framleiðslu eggjana auk þess að ekki eru notuð óæskileg hjálparefni. "free range" hænur eru ekki í búrum, heldur ganga þær um gólf og verpa í hreiður"

Svo mörg voru þau orð. Jahá,, þannig er nú líf hænsna í dag, ganga um gólf og eru free range. Hugurinn leitaði í sveitina mína þar sem hænurnar áttu sér hús, já held bara heila höll, gengu bæði um gólf og móann í kring. Verptu þar sem þeim var mál, og fengu á vetrum skræli og hafragrautafganga og til viðbótar gras og það sem náttúran gaf á sumrum. Þetta hafa verið hefðarhænur. Þá var orðið vistvænt ekki til, hvað þá lífrænt ræktað og varla sjálfbært heldur.

Þegar ég var bóndi þá fékk ég "vistvænan stimpill" á afurðir mínar. Þó hafði ég ekkert annað við í ferlinu en þegar pabbi sendi fé á sláturhús. EIna vinnan sem bættist við var eftirlitsiðnaðurinn, skila skýrslum inn til yfirvalda og lofa því að ég skildi aldrei nota neitt annað en það sem kallaðist vistvænt. Síðan kom eftirlitsmaður og tók herlegheitin út. Jamm dýrara kjöt og álagningin var fenginn vegna pappírsvinnu.

Þetta var afleiðing þess  áróðurs sem íslenskir bændur þurftu að þola á sjöunda og áttundaáratuginn. Allt var slæmt sem úr íslenskri mold kom og ekki síst hefði það farið í gegnum hendurnar á íslenska bóndanum. Síðan þá hefur íslenski landbúnaðurinn lítið breyst, þ.e.a.s. framleiðsluferlið. Íslensk framleiðsla hefur alltaf verið vistvæn/sjálfbær. Engin aukaefni né áníðsla á náttúruna hefur átt sér stað. En til þess að nútíma neytandi geti með góðri samvisku rennt niður lambakjöti eða hrærðu eggi þarf að hafa yfir honum upptalningu á gömlum staðreyndum. Annan áróður og dýra auglýsingaherferð og ég tali nú ekki um aukaálagninu (sem skal verða eftir hjá milliliði) þarf til þess að breyta þessu.

Ég las það í blaði um daginn að breskir bændur sem framleiða lífrækt ræktuð matvæli séu að hugsa um að hætta að setja lífræna stimpilinn á afurðir sínar því nú á krepputímum sé fólk að loka buddunni og hætti að kaupa þesslags mat þar sem hann er dýrari. Nei nú skal hefja nýja herferð og hún á að heita Sjálfbær. Engu þarf að breyta í framleiðslunni bara útliti neytendaumbúða og fólk rífur enn á ný upp budduna í eintómri gleði og vissu um að það sé að gera sér gott.

Áfram íslenskur og sjálfbær landbúnaður. En vissulega held ég áfram að kaupa þessi góðu egg frá Brúneggjum sem eru afurðir frá brúnum hænum, hvítu eggin held ég séu ólífræn og hvítar hænur örugglega hvíttaðar og klórþvegnar en upphaflega hafi þær verið brúnar og frjálsar...


Brotist inn í bíla

Brotist var inn í nokkra bíla í Bolungarvík aðfaranótt fimmtudagsins. Það voru einhverjir óprúttnir náungar, sem fóru ránsferð um staðinn og gómuðu saklausa borgara sem skildu bílana sína eftir ólæsta http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=120944.

helst vakti áhuga þeirra frontur af hljómflutningsgræjum en ótrúlegt nokk þá tóku þeir til handagagns handbækur úr hanskahólfi, skráningarskýrteini og smurbækur líka. Þetta var það eina sem hvarf úr mínum bíl, en önnur verðmæti s.s. smápeningar, svefnpoki og reiðtygi létu þeir eiga sig. Blush Undarlegt verðmætamat hjá þeim. Aðrir voru ekki eins heppnir og þeir sem áttu Ipota og GPS staðsetningargræjur fengu meiri hreinsanir.

En ég fór að reyna að greina þetta,, hvað hafa þeir að gera með smurkortið úr bílnum og handbækurnar? Skildi þetta vera einhver bílaáhugamaður sem er að skrifa ritgerð og greina bílaflota Bolvíkinga? greina hvort bílaeigendur mæti með bílana í smurningu og hvort þeir séu rétt skráðir? Fróðlegt væri að sjá niðurstöðurnar! kannski þær verði birtar í einhverju aðgengilegu formi síðar meir.

Nágrannakona mín hún Guðný tapaði frontinum af hljómfluttningsgræunum sínum í klærnar á þessum töffurum. Ég hef smá samviskubit yfir því og tek það aðeins á mig. Því hún er nýflutt úr 101 Reykjavík og hefur verið mjög samviskusöm við að læsa bílnum en ég búin að gera stólpa grín af henni " hvað ertu að læsa bílnum, fyrir hverjum? ,, hehehehe.. " jæja sá hlær best sem síðast hlær, segir einhverstaðarFrown


70 ára fermingarbörn

fermingarbörn_1938Þetta er fríður hópur fermingabarna sem var fermdur frá Flateyrarkirkju árið 1938, eða fyrir 70 árum. Mér áskotnaðist þessi mynd á sunnudaginn frá Gróu Björnsdóttur.  Fremst á myndinni til vinstri er mamma (Árilia Jóhannesdóttir) henni við hlið er María Magnúsdóttir(Mæja Magg), þar við hliðina er Gróa Finnsdóttir og svo kemur Björg Jónsdóttir (systir Stellu). Þessar þrjár síðastnefndu eru allar látnar Mæja Magg dó núna snemma í vor. Hún var orðin 16 ára þegar hún var fermd þar sem hún hefði legið rúmföst vegna veikinda sinna í tvö ár. Mamma er þarna á fimmtándaárinu, samt minnst. Hún fékk berkla og  gat ekki fermst með sínum árgangi og þurfti því að fermast með árgangi "24 .

Af strákunum veit ég bara hverjir þrír eru en það er Haraldur Jónsson, (maður Gróu Björns og pabbi Gógóar) hann er held ég annar í röðinni frá vinstri alla vegna líkt því fólki. Svo er Högni frá Hvílft og Gunnlaugur Kristjánsson (pabbi Öllu í sparisjóðnum á Flateyri) veit ekki hvar hann er á myndinni. Presturinn er séra Jón Ólafsson í Holti. 

Ég veit ekki hvort nokkur er á lífi fyrir utan mömmu,, en gaman væri að vita hverjir eru þarna fleiri.

Mamma og systkini hennar, Sína og Stjáni smituðust öll af berklum af manni sem var gestkomandi hjá ömmu, Hann hét Magnús og var frá Dýrafirði, Hann kom ungur til Flateyrar til að hitta unnustu sína en móðir hennar vildi ekki taka hann inn á heimilið þar sem hann var berklasmitaður. (lái henni hver sem vill) en hún amma sá aumur á honum og leyfði honum að gista. Hann var í nokkra daga og fór svo suður og dó um veturinn.

En eftir sat amma með þrjú börnin smituð af berklum. Stjáni var sendur suður á Vífilsstaði, Sína fór á sjúkrahúsið á Ísafirði, en mamma sem líklega hefur sloppið best, var send þegar hún var búin ná sér eftir mestu veikindin, á Brekku þar sem hún átti að vera nær hollari næringu og góðu atlæti. Það virtist hafa góð áhrif á hana því hún bjó það svo í tæp fimmtíu ár. Stjáni og Sína náðu sér líka alveg eftir veikindin.

Adda mammaMamma stendur enn allt af sér, að verða 85 ára og búin að ala af sér 12 börn.

Ég er afskaplega glöð að hafa fengið þessa mynd.


Sunnudagur

holtSéra Stína í Holti var með kveðjumessu í dag í hausblíðunni. Um 120 manns sótti messuna og kaffið sem önfirsk sóknarbörn sr. Stínu boðuðu til. Kvenfélögin í sveitinni og út á Flateyri sáu um kaffið og það var sannarlega, kvenfélagsveitingar á hverjum diski.

Við sjáum eftir Stínu, Hún var prestur í Holti í átta ár og kom hér í júlí 1998. Það hefur sannarlega verið gaman að vinna með henni að kirkjumálum. Enda voru margir sem stóðu upp og héldu ræður sem hrærðu upp í tárakirtlunum okkar. En þau fara nú ekkert langt á Blöndós og eiga eftir að koma til okkar og heilsa upp á okkur.

Hluti af starfi Stínu er að sinna sjúkrahúsinu á Ísafirði, það hefur hún sannarlega gert að miklum heilindum og eru það áfáir sem hún heimsótt og veit ég að það er margur eldriborgarinn á Hlíf og sjúkrahúsinu sem sjá eftir henni.  Takk fyrir allt Stína og Oli og gangi ykkur sem best í Húnavatnssýslunum og í þeim verkefnum sem þið takið ykkur fyrir hendur.


Haust- tími aðfanga og birgðasöfnunar

Haust. Yndislegt veður. Meiri að segja lognið staðnæmist í víkum og fjörðum. Fjöllin standa á haus af eintómri kæti í sjónum.

Veðurleysa. Sauðféð sér samt ekki ástæðu til að fikra sig neðar í hlíðum meðan hitastigið er enn í tveggja stafa tölu og haginn safaríkur.

Búin að sulta, safta. Er farin að huga að sláturgarninu og bölum, Nei maður má kannski alveg missa sig í húsmæðrahlutverkinu. Er samt á leið á sambandsþing Vestfirska kvenna í Súgundafirði. Fjórðungsþing sveitarstjórnarmanna á Reykhólum. Þar sem þeir fara undrandi yfir reikninga frá athugunum um Olíuhreinsistöð. Hún er strax farin að sína margföldunaráhrif. Lögfræðistofur og Náttúrustofur fitna af eintómri eftirvæntingu og tímakaupið er mörgum sinnum hærra en tímakaup ljósmæðra sem leggja nú með hendur í skauti,, sínu skauti ekki annarra kvenna. Enda mega þær bara mennta sig ekki hrifsa peninga fyrir sín laun.


Sprengjur

Sprengja,- Nú er fyrsta sprengjan væntanleg kl 17:30 í dag í Óshlíðargöngum, Þetta ár er eiginlega ár sprengjunar í Bolungarvík. Margar sprengjur hafa sprungið og eiga eftir að springja. Fyrst meirihlutinn, svo taka við taktfastar spengjur við, inn í Óshyrnunni og svo líka skal sprengja í Traðarhyrnunni vegna snjóflóðavarnagarða.

 Ég er ansi hrædd um að huldufólkið sé farið að hugsa sér til hreyfings og flýji bara staðinn á næstu vikum. Það er ekki fyrir íbúa hulduheima að líða þetta. Allt er þetta gert til að hugnast okkur mannfólkinu, verja og bæta skal það heita.

Víst er það að ég fagna jarðgöngum þótt ég hafi viljað fara aðra leið, en þetta verður maður að sætta sig við og geri það bara. Ekkert annað í boði. Mikið verður nú gott að geta í vetrarbyljunum og sumarrigninunum keyrt óhultur þessa leið. 

bara áður en við hleypum bormönnunum í burtu að muna að láta þá taka nokkur göng í leiðinni.


Ber og rjómi

blaberLífið er ber og rjómi þessa dagana. Berin eru týnd eða liggur við að segja mokuð upp í kílóa vís. Sultur og saft,, og allir fingurgómar bláir alla daga. Rjómaballið sl. laugardag og heppnaðist frábærlega, nema maturinn. Bragðlaus illa fram borin og fyrir þá sem fengu nóg var það magafylling fyrir hina vonbrigði. En allt annað bætti þetta upp. Varð fyrir vonbrigðum með matinn því annars hef ég ekkert heyrt nema gott um hótelhaldið á Núpi í sumar og vonandi að þetta hafi bara verið smámistök sem þeir læra af.

Sunnudagurinn rann upp skýr og fagur, með berjatínslu og messu á Flateyri. Mætti í kveðjumessu á Flateyri til sr. Stínu, þar sem hún kvaddi söfnuð sinn. Frekar fáir í messu en þó þessir föstu gestir. Hún var búin að æfa upp prógramm með barnastarfinu sínu og var með 17 börn á æfingu sl. miðvikudag og auðvitað vonaðist eftir þeim til messu en EKKERT barn mætti,,  ææ,, einhverjum datt í hug að bjóða í barnaafmæli á sama tíma og messan var og börnin tóku það framyfir. Frekar taktlaust verð ég að segja, hvar eru foreldrar þessara barna, kunna þau ekki að þakka fyrir sig?  eitthvað svo andfélagslegt finnst mér.

Smalamennska tók við að messunni í blíðunni og svona voru rollurnar hissa þegar birtist hópur vaskra smalamanna til að beina þeim heim í sólinni og 16 stiga hita.

kindur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband