Færsluflokkur: Bloggar

Jólahlaðborð og fleira

Fór á Jólahlaðborð á Núpi í gærkveldi frábært í einu orði sagt. Mjög góður matur og skemmtilegt í alla staði. Gaman að það skuli takast vel til þetta framtak þeirra bræðra Sigurðar og Guðmundar, Sigurður er hótelstjórinn og Guðmundur er kokkurinn.Sigurður sagði mér að á sjö kvöldum væru þeir líklega að fá um 700 gesti, það er nú alveg frábært miðað við að vera ekki beint í alfaraleið. Þeir fá líka marga sem koma og gista.

 Lambakjötið frá Hjarðadal rann ljúflega niður með öðru. Þorsteinn Haukur og Lilja Kjartans sungu ljúflega yfir borðhaldinu og þeir bræður Ási og Massi spiluðu á harmóniku við dans á eftir. Okkur Helgu systur syfjaði undir spilinu enda vanar því frá því við vorum litlar á jólaballi á Sandi að sofna við harmónikuspil Ása í Ástúni undir borðum, en við hörkuðum af okkur.

Í dag fór ég á Þingeyri og var við jarðaför Sigurjóns bónda í Lokinhömrum. Með honum er fallinn frá síðasti ábúandinn í Lokinhamradal, og eins og Guðrún Edda sagði þá eru þá fáir eftir sem hafa búið við það mest alla ævi að hafa hvorki rennandi vatn né rafmagn sér til þæginda. Hann fæddist 1925 í Lokinhömrum og bjó þar til 1994 er hann flutti að Þingeyri en var meðan hann gat á sumrin út í Lokinhömrum. Hann og mamma voru systkinabörn en Sigríður mamma Sigurjóns og Jóhannes afi voru systkini.

 


Í bljúgri bæn...

Þetta er algjör snilld!!!!

ég var að syngja þetta með kirkjukórnum við síðustu messu,, en það var aðeins öðruvísi.. skulum við segja


20 evrur

evraÉg á 20 evrur í seðlaveskinu mínu síðan ég var út á Kanarí í vetur, þær hafa vaxið þar og dafnað eins og ofalinn kálfur.

ég rétt missti af sölu á KB bankanum þarna úti í heimi,,

vitið þið um eitthvað bankaútibú til sölu? Ég var að hugsa um hvort Sparisjóður Vestfirðinga færi ekki á útsölu bráðum, það verður kannski með þau eins og Gugguna þegar henni var siglt frá Ísafirði þrátt fyrir gefin loforð um annað, nei vonandi ekki.......


Flóð

Það er svo margt yndislegt við aðventuna. Til dæmis að fylgjast með jólabókaflóðinu.

Þegar ég kemst í að lesa virkilega góða bók, finnst mér ég standa á tindi og sjái yfir viðsýnt land, sólin að koma upp og tilfinningin er lík því þegar maður getur sagt "já ég vissi það" með sannfæringu.

Svoleiðis bók er ég einmitt að lesa núna. Hún heitir Fluga á vegg, eftir Ólaf Hauk Símonarson. Hún er svo hugljúf og hlý. Ólafur tekur lika lesendur sína með í söguna og maður rennur inn í textann. Þetta upplifði ég einmitt í fyrra með Hrafni Jökulssyni og Jóni Kalmanni Stefánssyni, í bókinni Himnaríki og helvíti.

það eru líka margar góðar bækur ólesnar hjá mér á listanum, Rán eftir Álfrúnu er líka á náttborðinu, hún heldur mér ekki eins fangni og fluga Ólafas.

Ég verslaði líka Húsið eftir hana Hörpu Jónsdóttur, það er skemmtileg þankabrot, og ég las hana líka með bros á vör. Bækur þurfa ekki að vera þykkar né þungar til að skilja eftir sig, en hún gerir það svo sannarlega.

já ég er í miðju jólabókaflóði


Snjókoma og messa

Hér var sannkölluð hundslappadrífa, og það hefur kyngt niður "meiri snjó, meiri snjó" en þetta er komið gott í bili.

Fór vestur á Flateyri til að syngja í kirkjukórnum við innsetningamessu Séra Fjölnis í Holti. Fjölnir er nýr prestur sem tók við af séra Stínu. Hann kemur með fjölskyldu sína með sér konu og þrjá litla stráka. Það er sérstaklega ánægjulegt að það skuli nú vera komin fjölskylda í Holt með börn. En það hafa ekki verið börn heimilisföst í Holti síðan að krakkarnir hans séra Lárusar voru, og er komin líklega nærri fjörtíu ár síðan að þau gátu kallast börn.

Það var bara mjög vel mætt í kirkjuna á Flateyri um 70 manns, best að taka það fram því ég skammaðist hérna á bloggheimum yfir mætingunni í haust þegar séra Stína kvaddi. Ég fagnaði sérstaklega að sjá vin minn hann Sigga Hafberg sem mættur var til að taka á móti guðsorðinu. Lofaði mér því að hann myndi mæta reglulega hér eftir,,, gott ef hann kemur bara ekki í kórinn. Reyndar var helmingur kirkjugesta frá Ísafirði, en Heiðrún kona Fjölnis er Ísfirðingur í húð og hár.

En nú er ég komin heim og við dundum okkur við að setja upp jólaljósin og aldrei að vita nema ég mæti á kyrrðarstund hjá séra Agnesi í kvöld, verð orðin heilög í gegn áður en geng til máða.

 


Jólaljósin tendruð

Jólaljósin voru tendruð á jólatrénu í Bolungarvík í dag. Jólasveinar og kór, hleyptu aðventustemmingu inn í bæinn, og ekki má gleyma ávarpinu hans Baldurs.

Jólasveinninn kvartaði yfir spengingum sem hafa verið hér síðan í sumar í fjöllunum í kring, var hálfframlár enda ekki getað sofið fyrir þessu. Hann hélt að Grýla væri að skrattast eða hefði  jólakötturinn  fengið í magann og fretaði svona hryllilega??

Börnin reyndu hvert í kapp við annað að útskýra fyrir honum en ein hnátan gat útskýrt þetta fyrir honum að það væru verksmiðjumenn með hjálma sem væru að sprengja gat í gegnum fjallið svo við kæmust á Ísafjörð... það var nefnilega það, einhver var tilgangurinn með þessum látum....


Vantraust á ríkisstjórnina

Nú er verið að kjósa um vantrausttillögu á ríkisstjórnina á Alþingi, rjúfa þing og efna til kosninga... Já ég veit það ekki alveg, ég vil sjá ný öfl við stjórnarborðin en ég er bara svo hrædd um að dýrmætur tími fari til spillis í kosningabaráttu.

Hvernig væru að þeir snéru bara bökum saman og mynduðu bara eina stjórn með fulltrúum allra flokka og hættu þessu nagi.....

en ég er bara háttvirtur kjósandi og á sennilega bara að éta hann sjálf.....


Undarleg tíðindi

Ég ligg heima veik, lagðist í rúmið á sömu klukkustund og Guðni sagði af sér, veit ekki hvort það var orsökin en örugglega hefur það hamlað ónæmiskerfinu að ráðast á magapestina sem koma aftan að mér og hamlaði þrótt.

Hef verið að meta stöðuna milli þess sem ég sting höfðinu í skúringafötuna en allar góðar hugmyndir og niðurstaða hefur skilað sér sömu leið og innihalds magans. Það er nokkuð ljóst að framsóknarmönnun innan framsóknarflokksins hefur fækkað hressilega síðustu vikuna. Ljósi punkturinn er að í fyrsta skipti í sögu alþingis eru konur í meirihluta í blönduðum þingflokki. En ekki hefur það verið markmið Guðna.

Nei það er nokkuð ljóst að áform hans til að endurheimta fyrri líf flokksins tókst ekki, til þess fékk hann ekki vinnufrið og hver höndin upp á móti annarri varð til þess að eini forustumaður flokksins lætur í minnipokann. Hver verður arftaki Guðna í janúar? Mér finnst bara ekki um auðugan garð að gresja. Það þarf nokkuð öflugan og sterka manneskju.

Með Guðna er farinn heiðarlegur þingmaður sem hefur sannarlega verið traustsins verður, Hann var td. farin að vara fyrir löngu við efnahagssprengingum en fékk ekki hljómgrunn, talaði ekki eins hátt og Steingrímur J, eða vildu fjölmiðlamenn ekki hlusta. Hann háði líka nokkra mótspyrnu við hægri stefnu Halldórs Ásgrímssonar, sem er líklega að brjótast fram til valda enn á ný . Með Guðna er farin púður úr stjórnarandstöðunni, Frjálslyndi flokkurinn löngu óstarfhæfur og nú fylgir framsókn með og Steingrímur stendur einn en keikur fyrir VG. Auk þess var Guðni öflugur talsmaður landsbyggðarinnar, þeim fækkar inn á þingi.

Þá er ekkert annað en að leggjast undir feld og hugsa sinn gang. Miðjuflokkur með hægrisveiflu gagnast hvorki landi né lýð. Sem ég segi,, það vanar öflugan miðjuflokk, mér finnst allir möguleikar vera veikir í dag, kosningar líklega í vor, og varla á þeim tíma tekst forustulausum flokki að fá hljómgrunn í hávaðanum sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Kannski...

Hver verður nýr veruleiki eftir kosningar?

afsakið mig meðan ég þarf að æla..........

 


Dagur íslenskrar tungu

16. nóvember fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.

Á íslensku má alltaf finna svar..

Ég vona að fari aldrei eins fyrir íslenskunni eins og myntinni. Tungumál er eins og menntun, eitthvað sem verðfellur aldrei og verður aldrei seld enda ekki hægt að kaupa hana og selja eins og íslenska kvótakerfið, bankanna, símann,og fleira.

Þótt íslenskan geti ekki fundið svar við þeim hremmingum sem íslenska hagkerfið er að ganga gegn um né hvað framhaldið verður, eða hverju eigum við að trúa. Þá verður seinna meir hægt að koma því í orð, sem rata inn Öldina okkar, eða skólabækur sem notaðar verða til að vara komandi kynslóðir við gildrunni. Skrýtið við höfum dottið í svo marga pytti en samt göngum við sömu leið.

Var að koma frá því að sitja fjármálaráðstefnu sveitarfélagana, mörg fróðleg og þung erindi voru flutt þar. Vandamál fyrri ráðstefna svo sem eins og bólgur hagkerfisins hjá sveitarfélögum á suðvesturhorninu, hafa hjaðnað og holur standa eftir. Og ólina skal hert enn frekar. Árni fjármálaráðherra hafði enginn svör, þrátt fyrir að hann talaði móðurmálið góða, við skildum hann öll. "enginn aukaframlög, samt skulu sveitarfélögin breiða út faðminn í velferðakerfinu og bjóða öllum upp á graut"

Held samt að íslenskir sveitastjórnarmenn láta ekki beygja sig, heldur halda áfram fram á veginn, okkur og öllum Íslendingum til góða.

 


Fréttir og ekkifréttir

Það er frekar snautt andlega að lesa blöðin þessa dagana. Sumir vilja skipta út myntinni, kannski eins gott þegar landinn er hættur að þekkja hana í búðum og verðgildi hennar er sokkin. Spáir kólnandi en það er búið að vera bara yndislegt vorveður sl. viku, Morgunblaðið fullyrðir að synir erfi ekki fegurð feðrana, skildi vera að það sé verið að skírskota til eignanda blaðsins?

Meira uppbyggilegra að sitja og horfa á barnatímann með barnabarninu. Bubbi byggir er þó bjartsýnn og heldur áfram að framkvæma, engar hópuppsagnir hjá kappanum og gengi  stöðugt.

Eyddi lunganu úr deginum í gær við að þrífa íbúð sem dóttir mín var búin að taka á leigu. Húseigandinn fór án þess svo mikið sem sópa, og það tók vinkonu mína einn og hálfan tíma að skúbba sig niður á eldavélahellurnar og klósetið kallaði á velgju við þrifin, skil ekki hvernig fólk getur haft sjálfsvirðingu að afhenda húsnæði svona. En þetta tókst með góðra manna hjálp, Bessa, Sara og Ásta fóru eins og hvítur stormsveipur um allt og þegar allt var orðið hreint var þetta hið ágætasta híbýli. Sem sagt Bolvíkingum fjölgaði um fjóra í gær Kissing


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband