12.6.2007 | 10:57
Dýrt er útsýnið út á Sundin blá
Íbúðir í miðbæ Reykjavíkur eru farnar að seljast á þriðja hundrað miljónir króna. Það er nefnilega það!
Í hagfræðinni er talað um að verðmyndun gæti verið huglæg, en fyrr má nú rota en dauðrota. Hvað er verið að verðleggja? Útsýnið, hæð yfir sjávarmáli eða byggingarefni?
Þetta virðist ekki teljast neitt tiltökumál og fjölmiðlar æla nú ekkert yfir þessari þróun.
Hér í Bolungarvík eru 200 fermetra einbýlishús að seljast á 9-16 milljónir og íbúðalánasjóður og aðrar fjármálastofnanir grípa andann á lofti og neita jafnvel að lána.
Nýlegt dæmi hér frá Bolungarvík:
180 fermetra 25 ára einbýlishús með bílskúr. Löggiltur fasteignasali metur eignina á 13.9 milljónir. Tekið skal fram að það er ekki útsýni yfir sundin blá, en stórkostlegt fjallasýn og friðsæl byggð, öll þjónusta í göngufæri, góður skóli, leikskóli, heilsugæsla og verslun auk ágætis samfélags.
Tilboð berst í eignina upp á 12,3 milljónir og eigendur taka tilboðinu, enda búin að fjárfesta í annarri eign.
Nei! íbúðalánasjóður dregur lappirnar við að samþykkja lánaumsókn þar sem þeir efast um markaðsverð sé rétt.
Ótrúleg niðurstaða. Ekkert er meira virði en það sem aðrir eru tilbúnir að kaupa það fyrir. Það á líka að gilda með eignir í Bolungarvík eins og í 101 í Reykjavík.
Ef kaupandi gerir tilboð í eign í Reykjavík upp á 230 milljónir þá er hún á því virði og ef kaupandi gerir tilboð í eign í Bolungarvík og kaupandi og seljandi eru ásáttir um verð þá er það líklega markaðsverð,, eða hvað?
Hverjum er íbúðalánasjóður að þjóna?
eftirfarandi tók ég upp af heimasíðu Íbúðalánasjóðs:
Íbúðalánasjóður er sjálfstæð ríkisstofnun sem veitir einstaklingum, sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum húsnæðislán til íbúðarkaupa og byggingarframkvæmda. Íbúðalánasjóður er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum
Svo mörg voru þau orð
Dýrasta íbúðin á 230 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já Halla mín svo mörg voru þau orð. Þetta er ótrúlegt og ósanngjarnt að maður bókstaflega á ekki til orð!!!
Spákonan á Kambinum (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 07:41
Hvað meinarðu ,,ekki útsýni yfir sundin blá"? Síðast þegar ég vissi var sjórinn afskaplega fallega blár fyrir westan...
Harpa J (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.