staldraðu við!

Það eru annir hjá mér þessa dagana, lítil stúlka i heimsókn, Ólöf María, sem vaknar útsofin kl 6 í morgun og vildi fara tala við hundinn. Fannst líka ekkert athugavert við Það að amma sín færi að elda hafragrautinn kl 6:30, vildi líka gefa hundinum graut í skál!

Á leið í vinnu sungu vorfuglarnir fyrir mig enda logn og +7 C, en ég var pínu upptekin og hlustaði varla með öðru, annir biðu. En þó var eitt sem fékk mig staldra við og líta út um gluggann þá heyrði ég loksins hvað fuglarnir sungu fallega og hvað þeir voru að reyna að segja okkur. "Vorið er að koma, fagnið og fljúgið"

 Ég var að hugsa til ungrar stúlku sem berst fyrir lífi sínu. http://blomaros.bloggar.is/

Það er ekki alltaf sjálfsagt þetta líf né heilsa.

Kraftaverkin gerast enn, sjáum til.


Olíuhreinsistöð, Óshlíð og fleira

Ég hef áður viðrað þá skoðun mína hvað mér finnst um staðsetningu jarðgangna Bolungarvík/Ísafjörður vera Syðridalur/Tungudalur og finnst mér það eina raunhæfi kosturinn, annað er friðþæging. Vanþakklæti? nei langtímasýn!

 Nýjasta kosningabrella sjálfstæðisflokksins er Olíuhreinsunarstöð hér á Vestfjörðum og þá jafnvel í Dýrafjörð. Ég kolgleypi ekki hugmyndinni án þess að tyggja hana fyrst. En er alveg til í að japla. Ég vil fá allt upp á borðið, en er ansi hrædd um að mengun (sjón/koltvíseringur) af henni verði of stór biti fyrir okkur.

En ef þetta veltur lengra þá eru 500 störf í boði og uppbygging mikil í kringum þetta. Hvar skal þá byggja? Við vitum það að íbúðarbyggingarland í Ísafjarðarbæ er af skornum skammti nema kannski helst þá í Dýrafirði, Nú og þá hér í Bolungarvík, hér er nægt byggingarland og fullt af endalóðum!

Þá komum við aftur að jarðgöngum frá Bolungarvík. Þá væri auðvitað vitlegast að láta tengja Tungudalinn og Syðridal. Hér koma nokkur atriði sem styrkja þessa skoðun mína:

  • Staðsetning á flugvelli Ísafjörður/Þingeyri
  • Framtíðaruppbygging á Ísafirði er inn í Skutulsfirði ekki út á Eyri.
  • Myndi færa Bolungarvík nær "miðju" á norðanverðum Vestfjörðum
  • betri nýting á Bolungarvíkurhöfn.
  • Olíuhreinsistöð í Dýrafirði.
  • leiðin til Reykjavíkur styttist.
  • Það stendur til að fara að bora eftir heitu vatni í Tungudalnum, ef nægt vatn finnst væri hægt að leggja það til Bolungarvíkur í gegnum göngin?
  • þessi leið kemur til með að vera lausn til framtíðar næstu aldir.

þau atriði sem eru síðri við staðsetningu jarðganga Skrafasker/Bolungarvík.

  • Veðurfar og snjóflóðahætta á Eyrarhlíð
  • Bolungarvík enn jaðarbyggð.
  • Ef til Olíuhreinsistöðvar kæmi þá væri það síður kostur að starfsmenn byggju í Bolungarvík.
  • vegagerð og gangnamunni milli Ósbæjanna, rýrir aðstæður eina starfandi mjólkurbúsins í Bolungarvík á Ósi.
  • Þarf að keyra í gegnum þorpið í Hnífsdal.
  • Þarf að keyra í gegnum eyrina á Ísafirði., Ekki hefur verið komið fram með neina lausn á því vandamáli. Á Sólgatan að bera alla umferð frá Bolungarvík og Hnífsdal, líka þungafluttninga?
  • þessi leið lítur ekki nógu langt fram í tímann,, 20- 50 ár.

Við verðum að horfa langt fram þegar við hugum að jarðgangnagerð, því vegastæði verður ekki breytt á næstu öld alla vegna.

 

 


Gleðilegt sumar!

Allir fjær og nær, Gleðilegt sumar!Heart

Ef ég myndi mæla gleði yfir hátíðisdögum á mælistikunni 1-10, þá myndi sumardagurinn fyrsti fá frá bilinu 8,5-10. Það færi eftir veðri á deginum sjálfum.

Þessi dagur hefur ekkert fallið í fegurðinni, frá því ég var stelpuhnokki.

Í gær var Sumardagurinn fyrsti haldin hátíðlegur hér í Bolungarvík upp á Skálavíkurheiði, Þar sem björgunarsveitinn Ernir var þar við að draga fólk upp brekkur sem rendu sér svo niður hana aftur og aftur á margskonar farartækjum, sleðum, þotum, slöngum skíðum og brettum. í tvo tíma í gær gekk ég í barndóm, renndi mér margar ferðir niður,,, vííííí á snjóþotu og sleða.

ótrúlega gaman! Björgunarsveitin Ernir, hafið bestu þökk fyrir daginn.


Vel þjálfaðir kjósendur

Einhvernvegin datt mér í hug, sjálfstæðisflokkurinn og kjósendur þegar ég las eftirfarandi brandari í blaði í gær:

Músin við vinkonu sína:

"Loksins er ég búin að þjálfa manninn. Hann gefur mér alltaf ost þegar ég hef lokið við að hlaupa í gegnum völundarhúsið!"


Olíuhreinsistöð!

Olíuhreinsistöð á Vestfirði ! þetta hljómaði eins og ekkifrétt í Kastljósi í gær, eða misstu þeir af 1. apríl gabbinu? 500 ný störf þau voru reyndar orðin um 700 í hádegisfréttunum í dag. Margföldunaráhrifin strax.

Það er auðvitað hægt að skapa 200 störf í kringum þetta. Það þarf MC Donalds stað, Nuddstofu, fleiri leikskóla, fleiri kennara, smiði og svo að ótöldum plastiðnaðarverksmiðjunni sem rís í kjölfarið. leikfangasmiðja, eða bara Lególand.

Allt að gerast.

Ætlum við að halda því fram að þetta sé besta hugmynd Vestfjarðarnefndarinnar, best að þegja meðan skýrslan liggur ekki fyrir. Þeir lofa 120 hugmyndum. Vonandi eru hinar 119 eitthvað raunhæfari. Kannski geimverurannsóknir, týna orma. Aldrei að vita.

ég persónulega vil frekar 10X10 störf eða 50X10 störf en að leggja einn fjörðinn undir olíuhreinsistöð.

Hrædd um að einblýnt verði á þetta í nokkra mánuði eða jafnvel ár og svo bang.. ekkert verður úr þessu og þá hefur öllu blætt út á meðan.

Við skulum skoða þessa hugmynd sem eina af 120 hugmyndum og gera þeim öllum jafnhátt undir höfði.

kannski er þetta veruleikinn, hummm veit ekki.

 


Hjólað í vinnuna

Við erum farin að sjá í skottið á vorinu, það er alveg að koma. Ég tók út hjólið á sunnudaginn og gerði það klárt, fór með það niður í sjoppu og fékk loft í dekkin. Svo þegar ég vaknaði í gær var komin snjóföl.. ææ fór samt á hjólinu hefði átt að sleppa því. Rann í hálkunni og hreinlega rúllaði eftir gangstéttinni. Uppskar hrufl á hné og auma öxl, hausinn slapp var samt ekki búin að vekja hjálminn frá vetrardoðanum.

Stóð samt svo snöggt upp að engispretta hefði skammast sín. Leit skömmustulega í kringum mig, sem betur fer fáir á ferli.

Kannski leikskólafóstrurnar hafi getað skemmt sér yfir óförum mínum ef þær hefðu ekki verið uppteknar að taka á móti börnunum.

Þegar ég hjólaði heim seinnipartinn hafði snjóin tekið upp, mætti tveimur ungum stúlkum á bleikum hjólum, þær voru auðvitað með hjálm.

Önnur þeirra veifaði til mín og kallaði: "hey kona, þú átt að vera með hjálm."

Bragð er að er barnið finnur!


fór suður

Síðasta fyrisögn bloggfærslu var "aldrei fór ég suður" fór reyndar suður í fyrradag og kom afur í dag, Aðeins til að sækja eld, eins og sagt var um einhvern hér áður fyrr , sem fór í snögga ferð.

 Borgin var ágæt, gulrótarkaka á kaffihúsi, var auðvitað dýrkuð, það er skylda, eins að heimsækja mömmu og tengdamömmu.

Greiðfærir vegir, nema auðvitað hér á Vestfjarðarkjálkanum, maður fer í tímavél þegar maður rennur fram hjá Brú í Hrútafirði og hverfur nokkra áratugi aftur í tímann, ó já!, En samt mjagast þetta, en bara mjakast.

 Við lentum í lífháska í Borgarfiðrinum, eins og hann getur nú verið fallegur. Við vorum að koma yfir blindhæð þegar við mættum fjórum bílum í röð, þá var einn sem endilega fann hvöt hjá sér að taka fram úr og við hreinlega mættum honum á okkar vegahelmingi. Siggi Gummi þurfti að keyra utaf til að forða árekstri. Svei honum, náði ekki bílnúmerinu. Hvítur jeppi, skamm skamm.

En við sluppum, þökk sé viðbrögðum Sigga.

 Þvílíkt hugsunarleysi sem fólk leyfir sér að stunda svona út á þjóðvegum landsins. Ökumaðurinn hefur kannski verið komin 5 mínútum fyrr í bæinn heldur en bíllinn sem var fyrir framan hann.  Hvað þarf til að fólk fari að taka akstur sem alvörumál? Ég er viss um að ökumaður þessarar bifreiðar, taki uppþvottalögin úr neðriskápnum í eldhúsinu svo barnið hans valdi sér ekki skaða með að drekka hann, eða passi að útbúa hafragraut barnsins aðeins úr lífrænt ræktuðum höfrum.

En þegar hann keyrir með það út á þjóðvegum landsins þá leggur það barnið sitt í stöðugan lífsháska með þessari framkomu auk þess sem hann stofnar lífi og limum annarra í hættu.

hugsið um það!

 


Aldrei fór ég suður- ég hringdi bara!

Ljúf helgi að renna sitt skeið.

Þessi fríhelgi er alveg dásamleg uppfinning, bara frí ekkert tilstand eða undirbúningur, bara fara i bónus kaupa páskaegg og svo bang! afslöppun, matur, hreyfing og afþreying.

Fór á "aldrei fór ég suður" þeir tókust alveg merkilega vel miðað við allan þennan mannfjölda sem heimsækir okkar litla stað og allt svo afslappað og skemmilegt. Fólk er greinilega komið til að njóta þess sem í boði er og ekkert vesen með það.

þeir sem standa a þessari hátíð eiga þökk skilið fyrir mikla vinnu sem þeir leggja á sig og koma Vestfjörðum  á kortið með þessum hætti. Það er vonandi að hægt sé að halda þessu áfram. Það er í mörg horn að líta þegar kemur að svona undirbúningi. Fólk vinnur að þessu að mestu í sjálfboðavinnu og leggur allt sitt undir. Mér fannst það lýsandi þegar ég var á tónleikunum þá stóð Muggi (Guðmundur Kristjánsson) fyrir aftan mig í þvögunni: Hann tók upp símann og hringdi eitthvað og ég heyrði að hann sagði "Ertu búin að redda smjörinu?"

Já það má ekki gleyma smáatriðunum til að allt gangi upp.

Breiddin á því sem var í boði var nokkur, allt frá öskrandi rokki upp í karlakór og Sigga Björns. En það var líka breiddin í mannlífinu sem birtist þarna. Allt frá tveggja mánaða börnum sem fengu að hanga framan á foreldrum sínum i pokum með eyrnahlífar og upp í gamalmenni.

Það var ein "mynd" sem mér fannst skemmtileg.

Fyrir framan mig eitt sitt voru tveir menn.  Ungur maður með millisítt hár, hafð tekið hárið og ýft því upp í hanakamb og stóð eins og hundaflóki út í loftið, Hann var með lokk í vörinni og fílaði kvöldið í tætlur. Við hlið hans stóð Siggi á Góustöðum. Rúmlega áttræður með derhúfu. Hefur aldrei haft hanakamb, hvað þá heldur eyrnahringi. En þeir stóðu þarna á sömu forsendum, því maður er manns gaman. Hljómsveitin Reykjavík! spilaði, þeir görguðu, hoppuðu og gítarleikarinn var búin að svifta sig klæðum og stóð á nærklæðunum einum fata.

Unga manninum fannst þeir vera "geðveikt góðir" og sló taktinn með hanakambinum.

Sigga þótti þeir heldur fjörmiklir, en þetta voru ísfirskir drengir af príðilegu fólki komnir, hann þekkti afa eins þeirra vel.

 


upprisan og lífið

Framundan eru bænadagarnir, haldið maður verði orðin þreyttur í skeljunum eftir helgina? Ekki veitir af að biðja fyrir okkur, hérna vesalingunum hérna fyrir vestan, ekki einu sinni veðrið ætlar að vera okkur hliðhollt um Páskana.

en þá er bara að finna sér hlýja værðarvoð og góðan reyfara. Dagskrá skíðaviku lofar líka góðu, tónleikar og einhver innivera hlýtur að finnst til afþreyingar.

Gleðilega Páska!


Vinnusöm helgi

Helgin að baki. Mikið að gera og gaman. Hagyrðingamótið á Flateyri gekk stórvel, rúmlega 200 manns og allir skemmtu sér hið besta. Hagyrðingar og söngfólk fóru á kostum. Sönlögin voru öll sungin við ljóð Guðmundar Inga.

Ég verð nú að segja að mér hlýnaði sérstaklega við hjartarætur þegar Siggi Björns frumflutti lag sitt við ljóð Inga, Sólfar. Ansi hreint gerði drengurinn þetta vel og spái ég því að hann noti þetta eitthvað meira.

Knapaskjól á Þingeyri var formlega vígt á laugardaginn. Vegleg bygging og kemur til með að nýtast hestamönnum á svæðinu vel. Alveg frá Patreksfirði að Bolungarvík. Skynsamlega ákvörðun að bygga þetta á Þingeyri. Aðkoma og aðgengi hestamanna til fyrirmyndar, miðsvæðis og tækifæri til frekari stækkunar og útvíkkunar. Það er ekki bara hestamenn sem gætu nýtt sér þessa aðstæður, það væri t.d. hægt að nota þetta sem þjálfunarstöð fyrir hunda, bæði leitarhunda og aðra. Fleiri möguleikar eru líka fyrir hendi.

Margar ræður voru fluttar og mörgum þakkað. Ég tek heilshugar undir orð sr. Guðrúnar Eddu en hún þakkaði aðeins tveimur máttarvöldum það að þetta hús varð að veruleika, en það voru Guð og Guðni Ágústson.

Mér datt í hug að ný bæn hesta manna gæti hljóð einhvernveginn á þessa lund. "feður oss, þið sem eruð á himini og jörðu, helgist ykkar nafn..."

ekki spurning!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband