Það eru ekki alltaf jólin

Lítil hnáta stóð fyrir framan mig með bolluvöndinn sinn og sagði: „Amma, nú eru jólin búin, hvað þá?“ Jú, bolludagur var fram undan, sprengidagur og öskudagur með möskum og grímuballi. En spurning hennar minnti mig á Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki þegar hún sat við að vinna ullina á löngum og dimmum vetrarkvöldum eftir jólin. Henni fannst sem allt væri kalt og dautt eftir nýliðna jólahátíði og svo óralangt í næstu tilbreytingu. Hún reyndi af mætti að kalla fram bjartari tíma og tilhlökkun í fleiri hátíðisdaga: „Núna þegar þessar hátíðir eru liðnar, hvað er það þá sem tekur við amma?“ Spyr hún ömmu sína. „Ætli það taki sosum mikið við, held það taki ekki mikið við. Sem betur fer.“ Svarar sú gamla, nærri hlakkandi.

Þjóðinni er eins farið og Ástu Sóllilju, við eygjum illa betri tíma og þráspyrjum yfirvöld um framhaldið. Okkur er illa bumbult eftir þenslu liðinna hátíðisdaga þegar landinn lifði jólin í efnahagslegu tilliti og var kannski helst til ginnkeyptur eins og hann héldi að þau vöruðu að eilífu. Jólasveinar í líki útrásarvíkinga hröktu raunsæi og skynsemi út í horn meðan þeir sleiktu úr öskum og skyrdöllum þjóðarinnar.  En er það rétt hjá ömmu Ástu Sóllilju að það taki ekkert við? Sérfræðingar eru ekki sammála um framhaldið, ekki einu sinni um skuldastöðu þjóðarinnar. En endurreisnarstarf er þegar hafið og mikið verk er fram undan. Það sem skipir mestu máli er að við missum ekki sjónar á framhaldinu, að við eygjum betri tíma. Breytingum fylgja tækifæri. Mikilvægt er að koma auga á þau. Það verður að hafa þor til að skoða skipulagið niður í rót, jafnvel á sérstöku stjórnlagaþingi þar sem stjórnskipulag landsins verður skoðað. Framkvæmdavaldið þarfnast endurskoðunar.Miklu máli skiptir að samfélagið verði byggt upp innanfrá í formi menntunar í heimabyggð á öllum skólastigum. Háskólasetur verði efld og sérstaða svæða nýtt. Menntun er driffjöður framþróunar og skiptir miklu máli. Einnig er mikilvægt að skapa aðstæður fyrir atvinnuskapandi hugmyndir og þannig verði frumkvöðlastarfi fundinn frjór farvegur. Þetta er hægt að gera í samvinnu við háskólaumhverfið á hverjum stað.Framsóknarflokkurinn hefur hlýtt kalli þjóðarinnar um endurskoðun og endurnýjun í röðum flokksins þótt ekki sé um að ræða neina umbyltingu því miklu máli skiptir að reynsla og þau manngildi sem fyrir eru fái að njóta sín. Flokkurinn hefur  því  afturfærst nær sínum grunngildum með fólk í fyrirrúmi. Það sem fram undan er þarf ekki að vera algjörlega nýuppfundið, hins vegar þarf að leita jafnvægis og virkja lýðræðið. Okkur er því ekkert að vanbúnaði, við getum hafið endurreisnarstarf með bjartsýni og von að leiðarljósi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Verður opið prófkjör? Mér láðist alveg að spyrja að því!

Ylfa Mist Helgadóttir, 26.2.2009 kl. 23:28

2 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

nei póstkosning og þú verður að ganga í flokkinn fyrir 26. feb til að kjósa

Halla Signý Kristjánsdóttir, 27.2.2009 kl. 15:07

3 identicon

Frábær grein!

Ég lýsi yfir stuðning við Höllu - þú átt erindi á þing.

Árelía Eydís

Árelía Eydíus (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband