16.9.2008 | 19:50
Fréttir og veður
Það er fátt spennandi í fréttum fjölmiðla þessa dagana, hrun á verðbréfamörkuðum, jarðskjálftar og veðurspáin gengur verðbólguspám á sveif.
Undirmeðvitundin fer á flug og maður er farin að draga úr erminni gömul sparnaðarráð. Heimilisbókhald, visakortið hvílt og dustað rykið af setningum eins og "við höfum ekki efni á því " hætta að líta á það sem árás á sjálfstraustið heldur sem aðgerð sem hefur áhrif á sjóðsstreymið.
ég var orðin svo meðvituð í gær að þegar ég var að brjóta saman þvott og fann götóttan sokk að ég náði í saumaskrínið mitt og hripaði í gatið. Já langt getur maður seilst. Mikið vildi ég eiga spotta sem dugar á fleiri fjárlagagöt sem gapa og blæs í gegnum Alla vegna kann ég að klastra í sokk, en vantar viðgerðarefnið.
En eitt fékk mig til að skella upp úr þegar ég las blöðin í morgun. Það var að nú er búið að stofna skóla í Reykjavík með einungis 15 nemendum og þykir rosalega framför og nútímalegt. Hugurinn reikaði 10 ár aftur í tímann þegar við foreldrar í Önundafirði rérum lífróðri fyrir skólahaldi í Holti. Þá voru nemendur 15. Við bentum á að skólinn væri mjög tengdur náttúrunni, heimilislegt og rólegt umhverfi, mötuneyti,, (sem þá var ekki til í skólanum á Ísafirði) og mjög persónuleg kennsla. Reyndar voru nemendur á aldrinum 7-14 ára. Við fengum engu að ráða, nema því að við fengum það í gegn að fara með nemendur á Ísafjörð heldur en að vera með börnin á hverjum degi yfir veturinn á Hvílftarströndinni.
Ekki að þessi flutningur gerði svo sem enga slæma hluti og vel var tekið á móti þeim á Ísafirði og við gerum okkur fulla grein fyrir að börnum fór bara fækkandi í sveitinni.
En nú er svona fámennur skóli rekinn undir fínni stefnu sem er Hjallastefnan. Reyndar mjög góð stefna eftir því sem ég hef kynnt mér. En alltaf verður heita vatnið að heita eitthvað.
Já svona er þetta.. upp með bjartsýnina, sannfærð um það að ef okkur tekst að keyra upp bjartsýni og þá verður alltaf betra að lifa,, slökkvum bara á sjónvarpinu og tökum okkur góða bók í hönd. Það kostar ekki mikið og nægt úrval góðra bóka í næsta bókasafni.
Athugasemdir
Hahahaha! Ég var einmitt að spá í þetta sama og þú þegar ég sá þetta með 15 manna skólann!
Skemmtilegt að fara svona í hringi.....
Ylfa Mist Helgadóttir, 18.9.2008 kl. 15:17
Lalla lla llallla lallla ef þú kemur hér lallla lalla lallla.....................
jk (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 20:45
Það er nú svo oft þannig að það sem er fyrir neðan allar hellur á landsbyggðinni þykir fínt í henni Reykjavík. Sjáum þessar hverfamiðstöðvar í Reykjavík sem sjá um alla þjónustu, þ.e. sérfræðinga og fleira. Það var of mikil fjarlægð í gamla fyrirkomulaginu þ.e. öllu stýrt frá einum stað og þess í stað komið upp hverfamiðstöðvum um öll stærstu hverfi Reykjavíkur. Svo er landsbyggðin skikkuð til að sameina nú sveitarfélög því það sé svo óhagkvæmt að hafa stjórnsýsluna á mörgum stöðum.
(Tek það fram að ég veit náttúrulega ekkert um allar forsendur að baki þessara miðstöðva, þetta er bara það sem mér datt fyrst í hug).
Kv Sóley Vet
Ísbjörn, 23.9.2008 kl. 09:23
Sveitavargurinn getur auðvitað ekki haft rétt fyrir sér. Það er ALLT annað mál þegar alvöru sérfræðingar (les: fyrir sunnan) finna upp hjólið
Harpa Jónsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.