14.9.2008 | 10:44
Free range hænur
Í morgun var ég að hræra mér í skonsur sem ég geri oft og ekki til frásagnar, nema að mér var litið á texta sem var prentaður innan í eggjabakkann. Held ég hafi ekki lagt það í vana minn enda hefur ekki verið um mikla lesningu að ræða þar.
Nema þar stóð: " Velferð hænsna er höfð að leiðarljósi hjá Brúneggjum. Fyrirtækið hefur hlotið vistvæna vottun og má nota merkið vistvæn landbúnaðarafurð á framleiðslu sína. Til að vistvæn vottun fáist er sérstök áhersla á umhverfistengda þætti við framleiðslu eggjana auk þess að ekki eru notuð óæskileg hjálparefni. "free range" hænur eru ekki í búrum, heldur ganga þær um gólf og verpa í hreiður"
Svo mörg voru þau orð. Jahá,, þannig er nú líf hænsna í dag, ganga um gólf og eru free range. Hugurinn leitaði í sveitina mína þar sem hænurnar áttu sér hús, já held bara heila höll, gengu bæði um gólf og móann í kring. Verptu þar sem þeim var mál, og fengu á vetrum skræli og hafragrautafganga og til viðbótar gras og það sem náttúran gaf á sumrum. Þetta hafa verið hefðarhænur. Þá var orðið vistvænt ekki til, hvað þá lífrænt ræktað og varla sjálfbært heldur.
Þegar ég var bóndi þá fékk ég "vistvænan stimpill" á afurðir mínar. Þó hafði ég ekkert annað við í ferlinu en þegar pabbi sendi fé á sláturhús. EIna vinnan sem bættist við var eftirlitsiðnaðurinn, skila skýrslum inn til yfirvalda og lofa því að ég skildi aldrei nota neitt annað en það sem kallaðist vistvænt. Síðan kom eftirlitsmaður og tók herlegheitin út. Jamm dýrara kjöt og álagningin var fenginn vegna pappírsvinnu.
Þetta var afleiðing þess áróðurs sem íslenskir bændur þurftu að þola á sjöunda og áttundaáratuginn. Allt var slæmt sem úr íslenskri mold kom og ekki síst hefði það farið í gegnum hendurnar á íslenska bóndanum. Síðan þá hefur íslenski landbúnaðurinn lítið breyst, þ.e.a.s. framleiðsluferlið. Íslensk framleiðsla hefur alltaf verið vistvæn/sjálfbær. Engin aukaefni né áníðsla á náttúruna hefur átt sér stað. En til þess að nútíma neytandi geti með góðri samvisku rennt niður lambakjöti eða hrærðu eggi þarf að hafa yfir honum upptalningu á gömlum staðreyndum. Annan áróður og dýra auglýsingaherferð og ég tali nú ekki um aukaálagninu (sem skal verða eftir hjá milliliði) þarf til þess að breyta þessu.
Ég las það í blaði um daginn að breskir bændur sem framleiða lífrækt ræktuð matvæli séu að hugsa um að hætta að setja lífræna stimpilinn á afurðir sínar því nú á krepputímum sé fólk að loka buddunni og hætti að kaupa þesslags mat þar sem hann er dýrari. Nei nú skal hefja nýja herferð og hún á að heita Sjálfbær. Engu þarf að breyta í framleiðslunni bara útliti neytendaumbúða og fólk rífur enn á ný upp budduna í eintómri gleði og vissu um að það sé að gera sér gott.
Áfram íslenskur og sjálfbær landbúnaður. En vissulega held ég áfram að kaupa þessi góðu egg frá Brúneggjum sem eru afurðir frá brúnum hænum, hvítu eggin held ég séu ólífræn og hvítar hænur örugglega hvíttaðar og klórþvegnar en upphaflega hafi þær verið brúnar og frjálsar...
Athugasemdir
Dísöss Halla.....hvort á ég að kaupa hvít eða brún egg???
Hvor eru hollari!!!!
Verður maður ekki jafn fjörugur hvort sem er eftir brúnt eða hvítt eggja át??? :)
Bestu kveðjur til ykkar og munið að læsa bílnum :)
Spákonan á Kambinum (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 13:28
Ég kaupi alltaf þessi brúnu, ímynda mér að það séu hamingjusamari hænur sem verpi þeim þar sem þær fái að ganga um gólf. En ég er sammála þér með að þær hænur sem fá að ganga um gólf og og varpa hljóti að vera enn hamingjusamari og gefa bestu eggin, tala nú ekki um ef þar er líka hani á hól. Kannski maður fari bara að fá sér hænur aftur.
En þetta með vottunina, stundum er það svo að það þarf að setja nafn á hluti til að taka eftir þeim og rétt nöfn skipta máli til að selja. En við erum líka orðin svolítð rugluð í verðmætamati, ef eitthvað er ódýrt eru við viss um að það sér léleg vara, en það er ekki alltaf svo.
Ég er að sulta, mjög umhverfisvænt, sjálfbært og ég tala nú ekki um lífrænt ræktað, uuuummmm........... Það verður berja-sulta með öllum mat og í öll mál í vetur :)
Bessa (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 14:22
Jamm, ég og mín fjölskylda boðum sjálfbær egg, enda berum við þau sjálf heim í ísskáp hinsvegar eru þau hvít, spurning að setja á þau brúnkukrem og vita hvort þau verða brún eða kanské free range. Hinsvegar borða þær alla afganga grænmetis, ávaxta og brauðmetis sem til fellur á heimilinu og ruslið verður minna sem frá okkur fer, þannig að þær stuðla að endurnýtingu. Flottar hænur, enda átti Halla þær áður en ég skaut yfir þær skjólshúsi...........
Helga Dóra (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.