Veður

Síðustu færslur hafa snúist um veður og snjódýpt. Frekar þurrt en þarft. Veðrið hefur verið tjáningarform íslendinga í margar aldir. Við tjáum tilfinningar, stjórnmálaskoðanir og ást með því að tala um veðrið. Líka sínum við stuðning, linum sorgir annarra og hundsum líka með tjáningu.

Þegar ég var ung Tounge að árum þá var í sveitinni minni sveitasími þar sem öll sveitin og næsti dalur var á sömu línunni. Var þá hægt að "hlusta" símtöl sveitungana. Auðvitað var þetta óspart notað, og hafði hvert heimili sína tækni við að hlusta á símtölin án þess að trufla eða koma upp um sig. Mamma hafði t.d. lag á að skjóta hökunni ofan í taltrektina, þannig að ólætin í okkur systkinunum bærist ekki um sveitina.

Maður var ekki hár í loftinu þegar maður fór að taka upp tólið og aðeins að hlera. Alltaf hófust símtölin á veðurlýsingu. Þótt sama veðrið ríkti fram í Hrauni og niður á Grund, þá skiptust Dísa og Rúna alltaf á veðurlýsingu í upphafi símtals. "þegar ég kom hérna fyrir húshornið þá ætlaði hann bara að skella mér" sagði t.d. Dísa, hver? jú HANN,  líklega veðurguðinn. "Hvaaaað ertu að segja" sagði þá Rúna og lagði áherslu á Hvað og skipti líka um tóntegund í orðinu. þar á eftir fylgdi frásögn af snúruferð þar sem hann, sá sami og var nærri búin að skella Dísu, ætlaði að rífa þvottinn úr höndunum á henni. Eftir það fóru fréttir.

Dísa og Rúna voru uppspretta hjá okkur krökkunum að ákveðinni veðurlýsingu sem við kölluðum "saumsprettuveður". það var fallegt veður, helst kvöldsól, en kalt. Þá stóð Dísa á bökkunum á skyrtunni einni saman til að njóta fegurðarinnar, en kuldinn sótti að henni þá tók hún með annarri hendinni skyrtuhálsmálið saman svo reyndi á saumana að aftan, þannig að úr varð saumsprettuveður.

Í símtali karlmannanna fóru þeir frekar út í veðurspár eða hvernig HANN hegðaði sér í andspyrnu við spána í útvarpinu. Þegar veðurlýsingu, og fréttir af færð voru frá áttu þeir bara eitt erindi,Kannski það að samnýta ferð á Flateyri, eða hvað annað sem viðkom fénaði eða búskap, aldrei frekari fréttir af fjölskyldi eða öðrum einkahögum.  það sáu þær um.

svoleiðis var það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Halla veðrið var í kk. Hann er kaldur í dag. Fólkið var í hvk. Fór það í Hrauni til Flateyrar í dag, ekki sagt í neikvæðri merkingu. Gujamma spurði mig til dæmis oft "hefur það á Brekku komið oft í sumar" meinti hvort ættingjar hennar hefðu heimsótt átthaganna. Vona að við förum ekki að hætta að tala um veðrið, það hefur fylgt þjóðarsálinni svo lengi. Ó ég hlakka svo til þegar saumsprettuveðrið fer að koma aftur.

Talandi um hökuna á mömmu þinni í taltrektinni, það sem maður reyndi nú að æfa þessa list án árangus. Ég til dæmis  þekkti alla í Dalnum af röddinni löngu áður en ég vissi hvernig fólkið leit út. Mikið var allt í föstum skorðum í den.

Guja (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 18:03

2 Smámynd: Brynja skordal

hér á skaganum er farið að vora En þekki svo sem þetta vestfirska veðurfar en eftir að við fluttum úr víkinni þá spurðu börnin mig hvar brekkurnar væru með mikla skeifu hentu snjóþotum inn í skúr og síðan ekki söguna meir

Brynja skordal, 14.2.2008 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband