1.12.2007 | 11:03
Himnaríki og helvíti
Morgunn í Bolungarvík.
Óshyrnar bauð mér ekki góðan daginn fyrr en undir hálf ellefu. Éljagangur hefti útsýnið út um eldhúsgluggann. Mér finnst ég ekki ná jafnvægi inn í daginn fyrr en Óshyrnan dregur frá.
Annars kom það ekki að sök hreiðraði mig bara inn í rúmi og lauk við bókina Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman. Hrikalega góð bók, mæli með henni. Hún ku víst eiga að gerast hér í Víkinni og á Ísafirði eða í Plássinu. Lífið hér um þar síðustu aldarmót, þegar fjöllin voru svo há að þau skáru himinninn. Myrkrið á vetrum svo svart og þungt að það þyngdi andadráttinn. Dauðinn svo nálægður að það skildi aðeins einn sjóstakkur á milli lífs og dauða. Rúsínurnar í versluninni svo stórar að þær voru hnefafylli og sætar eins og sykur, sérstaklega fyrir þá sem ekki áttu inneign í versluninni.
Fólk upplifði hér himnaríki og helvíti. Hvað var annað í boði? og býðst eitthvað betra í dag? Hér áður fórnuðu menn lífi sínu og limum og var varla frétt þótt einn og einn kall léti frá sér öndina við barninginn við að ná í þann gula á haf út. Nú er það lög landsins sem slær á fingur fólksins hér við að bjarga sér að nýta sér afurði hafsins. Kannski eins gott, við vorum of ágeng við að halda okkur á lífi.
Himnaríki? helvíti?
Hvorugt, bara allt þar á milli!
Athugasemdir
Já framorðið er, amen.
jk (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 16:16
Ég þarf greinilega lesa þessa bók.....en vil samt ekki lesa allt of niðurdrepandi sögur......ekki núna.....er hún það nokkuð???
Spákonan á Kambinum (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 18:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.