Mamma!

mamma1 Þetta er hún Mamma!

Hún átti afmæli í gær, hún fæddist að Bessastöðum í Dýrafirði 20. nóvember 1923, sem sagt 84. ára í gær. Hún ber aldurinn vel þrátt fyrir að vera búin að ala af sér tólf börn og um daginn eignaðist hún 50. afkomandann. Hún á von á þremur til viðbótar fram á vorið og svo fjölgar sér þetta hratt eftir það og verður eins og poppkorn. Alltaf greinist tréð í fleiri greinar.

Ég er litla stelpan hennar, yngst af þeim sem uppkomust, Hún hefur líka misst þrjú börn tvö í barnæsku og svo Beta systir.

Þrátt fyrir þetta þá er hún ferlega hress, fer flesta daga út á Aflagranda að "hjálpa" gamla fólkinu. Hún stjórnar þar Bingóinu fer í bodsía og spilar á mánudögum. Mamma tekur lífinu ekkert of hátíðlega. Mátulega kærulaus, leggst ekki í rúmið af áhyggjum að óþörfu. Ég ætla að tileinka mér þann hæfilega það er markmiðið.

hennar uppáhalds iðja er að tína ber. Þrátt fyrir að hún treysti sér ekki út úr rúmi þá skal hún í berjamó, Þá stoppar hana ekkert. Skurðir og urðir, lækir og ár. Þetta veður hún yfir ef hún sér berjablámann í fjarska hinumegin.

Einu sinni var ég með henni í berjamó, hún var í nokkrum bratta á Gerðhamradalnum, þá sé ég að hún dettur og rúllar smá spotta og ég sé að hún stendur ekki upp aftur. Svo ég hleyp til, hrædd um að hún hafi meitt sig. " nei takk, ég þarf ekki hjálp" Hún datt sko, beint á berjaþúfu og notaði bara tækifærið að klára af henni áður en hún stóð upp til að athuga um meiðsli.

Það eru helvískir aumingjar sem ekki nenna í berjamó, að hennar sögn, og óvíst að þeir verða að manni. þetta eru verðmæti sem þarf að bjarga. Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Stuldur á týndum berjum er ekkert annað en siðblinda. " Ef þú vilt ber, þá getur þú týnt þau sjálfur" og hana nú. Nema um hvítvoðunga sé að ræða eða farlama öryrkja.

Hún spáir líka í bolla og sér þá ýmislegt, þó aldrei fyrir nákomna en framtíðarsýn ókunnra sér hún oft furðu nákvæmlega. Fyrir afkomendur eru það bara ferðalög og bréf,, sem birtast í bollanum.

Sem barn og unglingur þurfi ég oft að skammast mín fyrir hana, hún er nefnilega svolítið hvatvís, hún hefur ekki lagast með aldrinum en ég aftur á móti þroskast svo ég skammast mín ekki lengur.

En hún segir það sem hún hugsar og það eru oft í veislum að það stendur í einhverjum eftir athugasemdirnar. Blush

Setningar eins og "ég hitti konu um daginn og hún var svo feit að lærin á henni voru eins og brúarstólpar og hún fyllti út í stólinn,, hún var örugglega feitari en þú"!! fær mann til að svelgjast á kaffinu stundum.

"sjáðu konuna þarna, (og bendir) hvað hún er svört" maður reynir að hvísla því að henni að þetta sé dónaskapur og rasismi. " nei! hún getur ekkert að því gert þó hún sé svona greyið" kemur þá, eitt sinn var hún upp á vökudeild fyrir nýbura og sér þá lítið svart barn í súrefniskassa " þau eru nú falleg líka" Sideways

En hún er skemmtilega eftirtektasöm, þegar maður var úti að ganga með henni þá sér hún alltaf eitthvað sem maður veitir enga athygli. Vettlingar í götukanti, skemmtilega skrýtið fólk, les líka af öllum skiltum. Líka er hún hafsjór af gömlum sögnum af fólki og viðburðum. Hún er minnug. Enda var hún 10 ára notuð til að fara í hús sem var komið útvarp í svo kom hún heim og endursagði það sem flutt var í útvarpinu. Ég man líka þegar mamma fór í kaupstað, úr sveitinni (alla leið til Flateyriar eða jafnvel Ísafjarðar)eftir heimkomu þá sátu þau pabbi alltaf í eldhúsinu og hún sagði honum sögur og fréttir úr kaupstaðnum, og lék þá líka. Þá var oft gaman að hlíða á.

Skemmtileg kona hún mamma! Til hamingju með aldurinn elsku kerlingin mín.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æi hvað þú ert heppin að eiga svona skemmtilega mömmu.

Guðrún (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 14:11

2 identicon

Já, það er á hreinu að það er enginn eins og hún amma ( kannski eins gott) en hún er bara frábær

iris (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 20:48

3 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

til hamingju með móður þína, á eina svona sem ekkert stoppar, nokkrum árum yngri , hún á von á tveimur langömmubörnum eftir áramótin og verða þá afkomendur hennar orðnir 33 og er það frá okkur fimm systkynunum

Hallgrímur Óli Helgason, 21.11.2007 kl. 22:16

4 identicon

Innilega til hamingju með móður þína!

Harpa J (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 16:18

5 identicon

En Halla - ég ítreka hér með spurninguna frá síðustu færslu (það er ekkert verið að svara manni neitt ) : Sem sagt - hvar fást þessar ágætu bækur og hvað kosta þær?

Harpa J (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 16:22

6 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

Fyrirgefðu Harpa, ég hef bara verið upptekin og ekkert sinnt síðunni, en bókin á að fást í öllum verslunum Pennans og einnig fæst hún bara hjá okkur útgefendunum, kostar fjóra þúsundkalla hjá okkur. bara panta

Halla Signý Kristjánsdóttir, 30.11.2007 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband