27. september

27 september, er alltaf stór dagur í mínu lífi.

Pabbi minn átti afmæli þennan dag, hefði orðið 89 ára ef hann hefði fengið að lifa. Skrýtið að hugsa sér hann sem svo gamlan mann, var bráðungur þegar hann dó og ekki orðinn 70 ára.

Hann var fæddur að Brekku á Ingjaldssandi árið 1918, sonur hjónanna Guðrúnu Magnúsdóttur, húsmóður og bónda og Guðmunar Einarssonar, refaskyttu og bónda. Hann var 14. í röð barna Guðrúnar af 17 og 18 í röð bara Guðmundar af 21. Stór Brekkufjölskyldan. Pabbi bjó allan sinn aldur á Brekku og rak þar myndarbú og mannmargt heimili ásamt mömmu, henni Árelíu Jóhannesdóttur. Þegar hann var upp á sitt besta mátti sjá að býlið Brekka var með reisulegri býlum á Vestfjörðum, þetta gat hann samhliða því að koma okkur tíu systkinunum til manns. Tveir bræður mínir dóu í frumbernsku.

Pabbi var mikill náttúruunnandi og útivistarmaður, auk þess sem hann var mikill bókmenntaáhugamaður og sérstakur ljóðaunnandi. Hann sagði mér frá því að þegar hann var ungur maður í Reykjavík, þá til sjós og líka að vinna í landi þá hefði hann keypt allar ljóðabækurnar hans Jóhannesar frá Kötlum og lesið og lært.

Hann átti ekki mikla peninga handa á milli og brá hann á það ráð að kaupa eina bók, lesa hana og læra sem mest af ljóðunum, seldi hana svo aftur og keypti næstu. þannig lærði hann og kunni mikið af  ljóðum hans og fleiri skálda. Hann eignaðist svo ekki ljóðasafn Jóhannesar fyrr en hann var sextugur. En hann átti ljóðabækur Davíðs Stefánssonar og líklega hefur hann verið uppáhaldsljóðskáldið hans.

Það voru ekki alltaf til peningar á barnmörgu heimili til bókakaupa.

En það er fleira sem gerir þennan dag hátíðlegan, nú í dag eru 26 ár síðan við Siggi trúlofuðum okkur  og 43 ár síðan ég var skírð í Sæbólskirkju.

Líka var oft smalað á Sandi kringum þennan dag og voru það miklir hátíðisdagar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Afi þinn Guðmundur á Brekku var engum manni líkur af þeim fjölmörgu sem ég hef kynnst um mína daga. Aldrei sá ég hann en las bækurnar sem þeir Theodór á Austara-Landi unnu í sameiningu. Samvinna þeirra var einstakur kapítuli einn og sér. Bækurnar eru listaverk og vanmetnar vegna þess að á bak við þær eru ekki nöfn úr Elítu bókmenntanna.

Ef afi þinn risi úr gröf sinni og horfði yfir vestfirskar byggðir og sæi þær afleiðingar pólitískra myrkraverka sem nú blasa þar við held ég að yrðu tíðindi. Ég held að hann yrði mannsbani,- eins eða fleiri.

Árni Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 15:52

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og, til hamingju með daginn!

Árni Gunnarsson, 27.9.2007 kl. 15:53

3 identicon

Takk fyrir hamingjuóskirnar,

Ég er allavegna fegin að pabbi og afi lifðu það ekki að þurfa að hlusta á hugleiðingar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Það held ég að þeim hefði sviðið !

Halla Signý (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 17:05

4 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

til hamingju með daginn Halla

Hallgrímur Óli Helgason, 27.9.2007 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband