20.11.2013 | 08:42
Mamma á afmæli í dag!
Hún mamma mín á afmæli í dag. Hún er fædd árið 1923 svo hún er níræð, hún frú Árilía á Brekku. Við fórum að því tilefni á hárgreiðslustofu í gær og gerðum okkur fínar. Þar sagði hún stúlkunum nokkrar sögur, auk þess sem hún spjallaði, sönglaði og skellti hressilega uppúr öðru hvoru.
Þarna var mamma eins og hún átti að sér að vera. Hún gat alltaf kjaftað mig til með frásagnargleðinni, þegar ég stóð í brú af eintómri fr.. (ákveðni) þá kunni mamma alltaf einhverja sögu sem fangaði athygli mína og hvað svo meira sagði ég og þurrkaði af mér skæluna með erminni og skreið upp í fangið á henni. Eða hún réri mér á kné sér og sönglaði söguljóð.
Alltaf hefur hún staðið með mér og hvatt mig áfram, allt frá því að ég hljóp upp stigann á 0,3, undan eldri systkinum mínum sem kannski ætluðu að lemja mig. Þá skaust ég bak við mömmu sem stóð oftast í eldhúsinu, snéri henni að ógnvaldinu og ALLTAF tók hún minn málstað, þreif af sér inniskóinn og reiddi hann upp yfir höfuð viljið þið hypja ykkur og láta hana vera. Þá gat ég rekið út úr mér tunguna og tosað í eyrun. Svo var málið að halda sér nærri eldhúsinu þangað til allt var fallið í ljúfa löð. Á meðan mamma söng með útvarpinu og hundurinn Kátur spangólaði undir eldhúsglugganum og lét sig dreyma um stóra sigra út í hinum stóra söngheimi hunda.
Mamma var ekki stundum í eldhúsinu, hún var þar oftast enda voru heimilismeðlimir oft á annan tuginn. Hún var búin að fæða tólf börn, missa tvö og ól upp tíu. Pabbi, Helgi frændi og nokkrir krakkar í sveit á sumrin. Þetta kallaði á töluvert amstur við heimilið og aldrei færri en tólf sortir fyrir jólin, hundrað iðu í súr í sláturstíðinni og loft og veggir þvegnir með tveim vötnum fyrir jólin. Fagmennska húsmæðraskólans á Ísafirði var í heiðri höfð hjá húsmóðurinni á Brekku. Pabbi passaði þó að við krakkarnir og kannski mest eldri systkini mín fengu að hjálpa til eins snemma og hægt var. Enda voru þau séð gömlu hjónin að skipta börnun jafnt eftir kyni. Fyrst komu fjórar stelpur, svo fjórir strákar og svo aftur tvær stelpur. Föðursystir mín var glöð þegar Helga Dóra systir fæddist eftir strákagerinu. það þarf einhver að pressa af strákunum sagði hún. Mamma var sammála enda fékk hún nafnið hennar Dóru frænku.
Mamma kunni ýmislegt fyrir sér, hún hafði ung farið suður í vist hjá skosku Frúnni sem kenndi henni að syngja, þar lærði hún líka ensku. Heimurinn beið tilbúin fyrir litla söngfuglinn frá Flateyri en orð eru máttug, nokkur ljóðlínur á bréfsnifsi sem stungið er í vettling getur breytt umsnúningi jarðar. Ungi maðurinn að vestan sagðist Dreyma um augu hennar yndisleg mær; um brjóst hennar varir og hvarma Þessi orð og nokkur fleiri dugðu til að fylgja honum í dalinn og vera þar með honum meðan hann lifði.
Elsku mamma mín, þegar ég valdi fallegasta orðið í íslenskri tungu þá valdi ég orðið mamma. Það er vegna þess að mamma mín, þessi litla kona sem aldrei hefur vaxið upp í 160 sentímetra hefur alltaf reynst mér best og ást hennar á okkur krökkunum hefur alltaf verið skilyrðislaus. Hún átti líka stóra drauma sem ung kona um að syngja í hinum stóra heimi og hafði alla hæfileika til þess. En lífshlutverkið varð annað þó aldrei með neinni eftirsjá. En hún fékk líka að syngja á sviði í nokkrum löndum, það var ekki alltaf verið að sauma sláturskeppi í þau rúm fimmtíu ár sem hún bjó á Brekku þau tækifæri fékk hún eftir miðjan aldur.
Þótt ég sé að verða fimmtug fer ég með gleði í hjarta til mömmu sem nú dvelur á öldrunardeildinni á Ísafirði bara til að heyra ég elska þig litla krúttið mitt og það er svo sannarlega gagnkvæmt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.