19.12.2012 | 23:57
Að ala upp barn
Tímamót, vegamót. Hvenær hefur maður alið upp barn? Ól maður það upp? Launaði kálfurinn ofeldið? Fjórðungi bregður til fósturs og Barnið vex en brókin ekki. Þegar maður hefur lokið einhverju lítur maður á verkið og metur afraksturinn. Barnið er vaxið, alið og útskrifað.
Finnbogi Dagur útskrifast sem stúdent í dag. Þá finnst mér ég hafa lokið ákveðnum áfanga. Ég er búin að ala hann upp, enda tvítugur og gengur í skóm nr. 46.
Við foreldrarnir erum ánægð með verkið. Glæsilegur og skemmtilegur strákur. Auðvelt að ala hann upp ? hummm það er nú það. Það var fjölbreytt og oftast viðburðaríkt, sjaldan erfitt en aldrei leiðinlegt. Það tók tíma að koma honum í heiminn, tók tíma að kenna honum að reima skóna, og það tók tíma að mæta í foreldraviðtöl í skólanum,
...Að ná honum niður af þakinu,
...hafa ofan af fyrir honum í kirkju
... láta hann sitja kjurran við matarborðið
.. að láta hann skilja að maður pissar ekki úti, fyrir utan búð
...að skilja að hundurinn hefur styttra líf en maðurinn
...að kenna honum faðirvorið... eigi geym þú ost í frysti.
... að kenna honum vísuna um ömmu og afa sem bjuggu á Bakka
Það sem var fljótur að læra
... dónavísur sem hann fór svo með fyrir mömmu sína
...stærðfræði
... að hafa gaman að lífinu
...að knúsa
... að það er ekkert svo hugljúft sem hlátur er hann hljómar frá einlægri sál
... kurteisi
... og fljótur að læra við hvaða mörk mamma missti þolinmæðina
Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn. Önundarfjörður, Borgarnes og Bolungarvík. Heppinn strákur. Ömmurnar og afinn, Þura, Jóhanna og systurnar , frænkur og frændur alltaf umvafin ást og hlýju.
Skólarnir fimm, Holt, Flateyri, Ísafjörður, Borgarnes og Bolungarvík mótuðu drenginn,. Að öðrum ólöstuðum fær Margrét á Háhóli sem kenndi honum í Borgarnesi gullið, skildi Tourettið og sveitaþrána. Margir komu líka á eftir, Sossa, Halldóra og Helga Aðalsteins, Bessa og fleiri ,já hann hefur verið umvafin konum. Nú segir hann skilið við Menntaskólann á Ísafirði, góðan skóla og gott fólk sem gerði í sameiningu skemmtilegan tíma.
Fyrir mitt leiti er ég ánægð með verkið og þakklát öllum sem komu að því. Núna þegar ég horfi á drenginn minn finnst mér tíma mínum hafa verið vel varið og sannfærð um að þetta allt ofantalið hafi skilað góðum einstaklingi út í samfélagið og flyt til þín orð Guðmundar Inga.
Þú átt að vernda og verja,
þótt virðist það ekki fært
allt sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.
Vonlaust getur það verið
þótt vörn þín sé djörf og traust.
En afrek í ósigrinum lífsins
er aldrei tilgangslaust.
Elsku Finnbogi til hamingju með daginn og útskriftina.
GIK
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.