8.10.2012 | 15:59
Saklausa sveitastúlkan
Þegar ég var í henni Reykjavík um daginn, brá ég mér á kaffihús með vinkonu minni Ylfu Mist. Fátt finnst okkur skemmtilegra en að sötra gott kaffi og fara yfir staðreyndir lífsins á þar til gerðum veitingastað.
Nú nú, við vorum á leið niður Laugarveginn þá blasti við okkur lítið sætt kaffihús. Litli bóndabærinn, nánar tiltekið á Laugarvegi 41. Þetta leit allt ljómandi vel út, Organic, Fair trade og beint frá býli stóð í glugganum. Hvað gerist betra en að fari saman sanngjörn viðskipti og lífrænt og ég tali nú ekki um að það sé hægt að rekja upprunann? Við vinkonurnar vorum líka tilbúnar til að bjarga heiminum svo við fórum inn.
Þegar inn kom lofaði allt góðu, tvær stúlkur voru við afgreiðsluborðið, allt svo ljómandi fallegt þarna, reyndar bara einn sófi til að sitja á og svo var hægt að sitja við afgreiðsluborðið.Það eina sem var á boðstólum var súkkulaðikaka annað ekki, en við okkur blasti inn í eldhúsi svona ljómandi girnilegar muffins. Nei það var ekki í boði, þær voru að baka þetta fyrir annað kaffihús.
Jæja, Ylfa bað um súkkulaðiköku og latte og að sjálfsögðu rjóma með kökunni. Nei rjómi var ekki til, það væri svo lítið beðið um hann og svo bara stæði kakan alveg sjálf undir bragði það væri ekkert við það að bæta... Ylfa reyndi nú að halda því fram að rjóma væri aldrei ofaukið.. en gafst svo upp að sjálfsögðu annað var ókurteisi.Þá var komið að mér að panta, ég ætlaði að fá súkkulaðiköku og venjulegt kaffi ! Venjulegt kaffi sagði stúlkan stóreygð hvað meinaru? Nú bara svona uppáhellt sagði ég . Nei því miður þau voru ekki með uppáhellt bara svona vél, svaraði hún og benti á stærðar kaffivél sem fyllti út í hálft afgreiðslusvæðið. Auðvitað gaf ég mig (enda vel upp alin) og áréttaði að ég vildi bara fá svona venjulegt kaffi..þú verður að útskýra það betur hvað þú meinar með venjulegu kaffi sagði unga afgreiðslustúlkan. Nú var ég komin í bobba, hvernig átti ég að útskýra venjulegt kaffi? Langi mest að fá bara vatnssopa hann hlyti nú að vera til í venjulegu formi. EN hin siglda Ylfa Mist bjargaði mér og sagði: þið verðið að afsaka þessa hún er nefnilega frá Ingjaldssandi láttu hana fá americanó kaffi. Stúlkunni létti augsjáanlega við þetta og við settumst og biðum eftir því sem verða vildi.
Ekki stóð á afgreiðunni og hún kom með til okkar súkkulaðikökurnar, Ylfa fékk Latte og ég fékk smá kaffisopa sem huldi botninn á bollanum ca einn og hálfan desílítra eða svo. Heyrðu.. sagði ég... áttu ekki soja mjólk? (er svona að spara við mig mjólkurvörur út af slæmsku í ristli). Hún horfði á mig skelkuð og sagði : Nei við höfum tekið meðvitaða ákvörðum um að selja ekki Soja, hún hefur svo slæm áhrif á líkamann, gerir börn ófrjó og eykur estrógen í líkamanum og fleira taldi hún upp um óhollustu soja.. ok ,sagði ég og strauk á mér búkonuhárin á hökunni, takk ég er nú svo full af testesterón svo mér veitti ekki að soja. En sá svo aðmér, varð að láta í minnipokann og þáði kúamjólk sem hún sagði að væri sko gerilsneidd hægt og kæmi beint frá býli auðvitað. Gerilsneydd hægt, ekki vildi ég spyrja frekar út í það, Er hún frá Hálsi í Kjós? spurði sveitastúlkan saklausa frá Ingjaldssandi. Það hafði hún ekki hugmynd um, hélt sjálfsagt að ég væri að gera grín af sér.
Er þetta koffinlaust kaffi? Hélt ég áfram ég í einfeldleika mínum, vildi bara svona spjalla. Nú fór fróðleiksfúsa afgreiðslustúlkan á flug. Nei ekki var það koffínlaust en þetta var ljós brennt kaffi og sýndi mér muninn á bragðinu á ljósbrenndu og dökkbrenndu kaffi með því að rétta fram handleggina og myndi bil með höndunum. Sem sagt bragðið af dökkristuðu kaffi er svona þröngt líkalega ca 10 cm... eftir því sem þær sögðu,. Fleiri fróðleiksmolar hrundu af vörum hennar sem ég náði ekki.
Þetta þótti mér athyglisvert og dró ekki eitt orð í efa. En nú var svo komið að ég var búin með þessa tvo sopa af kaffinu, sem bragðaðist alveg ljómandi. Þá spurði ég um ábót... Nei því miður, það var ekki hægt. Það væri nefnilega bara seldur einn drykkur í einu og ef ég ætlaði að kaupa annan drykk þá yrði ég að borga hann sér,, 450 krónur takk fyrir.. já já fair trade (sanngjörn viðskipti) eða þannig.Þegar hér var komið við sögu vorum við alveg búnar að gefast upp vinkonurnar og flýttum okkur út, ég laumaði því nú útúr mér að ég hafði aldrei komið á bóndabæ sem ég hefði fengið svona naumt skammtað kaffi. Sagði þetta auðvitað ekkert upphátt bara læddi því svona í búkonuhárin.
Þegar ég labbaði út þá var ég alveg sannfærð um að eina sem væri beint frá býli á þessu kaffihúsi væri ég. Saklausa sveitastelpan frá Ingjaldssandi. En við Ylfa gátum hlegið af þessu alveg niður að Lækjartorgi.
Athugasemdir
hahaha æj...þetta hefur verið óspennandi upplifun :)
Ragnheiður , 8.10.2012 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.