1.5.2011 | 22:05
Pistill fluttur á 1. maí á Ísafirði
Vorið kom hlæjandi
hlaupandi
niður hlíðina vestan megin.
Engri sjón hef ég orðið jafn bundinn
og alls hugar feginn.
Ég tók það í fang
og festi mér það
sem fegurst og best ég þekki.
Mánuður leið,
mannsaldur leið,
og ég missti það ekki.
Góðan daginn og gleðilega hátíð.
Ljóðlínurnar sem ég las urðu Guðmundi Inga skáldi að orði í upphafi sjötta áratugarins. Hann var ekki endilega að tala um árstíðina heldur að hann hefði fest sér konu sem komið með vorið í fang hans, enda 18 árum yngri.
Rót kom á huga minn í gær þegar ég sat hérna í þessum sal,- á frábærri og tímabærri ráðstefnu um tækifæri, aðstæður og samkeppni fyrirtækja á Vestfjörðum. Ég stakk mér hér inn úr vorviðrinu fyrir utan til að hlíða á áhugaverða fyrirlestra. Þegar ég fór út var ég ekki viss hvort ég var með vorið í fangið, haustið eða hreinlega vetrarhörkur vestfirskrar búsetuframtíðar.
Vestfirðir hafa verið byggðir frá landnámi, af duglegu, sterku og bjargálna fólki. Allt fram á þennan dag höfum við verið sjálfum okkur nóg um það að hafa í okkur og á.
En tölur tala sínu máli, fólksflótti er staðreynd og ekkert þýðir að stinga hausnum í sandinn og neita að horfa á staðreyndir. Við höfum alltaf getað státað okkur af litlu atvinnuleysi en það hefur auðvitað verið á kostnað þess að fólk hefur tekið sig upp og flutt í burtu í leit að atvinnu, námi og þá í framhaldinu, vinnu sem hæfði menntun fólks.
En eigum við þá ekki bara að fara að dæmi Grunnvíkinga þegar þeir ákváðu á einum fundi að hætta þessu veseni hætta búsetu á svæðinu og flytja burt en hvurt? Er nóg að fara? Er grasið svona grænt hinu megin að allir hafi þar nóg?
Það kom fram í gær, í framsögu Vífils Karlsonar hagfræðings að við, - landsbyggðin værum að leggja meira til þjóðarkökunnar heldur en við neyttum af henni. Við værum að afla ca. 27% (prósenta) af tekjum ríkisins en ríkið væri að eyða 15% þeirra í samneyslu á landsbyggðinni. Þetta styrkir okkur í þeirri trú að við erum ekki bara þiggjendur í samneyslunni heldur gefendur. Sælla er að gefa en þiggja.
En við megum ekki festast í þeirri sjálfsumgleði, heldur verðum við að einblína á það að við Vestfirðingar erum Þátttakendur. Fullkomnir þátttakendur í samfélaginu. Meðan svo er þá erum við fullkomlega fær um að snúa þessari byggðaþróun við eða alla vega, að reisa varnarmúr gegn frekari hnignun. Ég held það geti verið hluti af vandanum að við höfum verið sannfærð um að partur af þessu öllu sé, að það er búið að koma því inn í undirmeðvitund okkar að við séum dragbítar og þurfalingar á vaxtasvæðum landsins og að við stöndum framförum og hagvexti þjóðarinnar hreinlega fyrir þrifum.
Fyrir 40 árum náðist sá sigur í áratugabaráttu íslendinga að fá handritin heim. Nú ættu Vestfirðingar að hefja sameiginlega baráttu að fá störfin heim aftur, þau störf sem hafa flust burt og líka þau störf sem verða til fyrir tilstuðlan þess opinberra en ná aldrei lengra en 70 kílómetra radíus frá Reykjavík
Dagurinn í dag er helgaður vinnandi stéttum eða verkalýðnum. Barátta þeirra í gegnum tíðina fyrir tilveru sinni er ekkert ósvipað og okkar vestfirðinga. Atvinnurekendur líta á hina vinnandi stétt sem þiggjendur og sig sjálfa sem gefendur. Þetta hefur fengið byr undir báða vængi undanfarna vikur í samningaferlinu. Kröfur stéttarfélaganna eru ónáttúrulegar og skilningur þeirra enginn á vel varðan veg þjóðarinnar í gegnum kreppuna. Allar launakröfur eru, að mati atvinnurekenda, til þess að leggja stein í þá beinu götu og það eina sem þarf að hnykkja á, er að staðfesta eignaraðild þessara fáeinu á auðlindum þjóðarinnar.
Atvinnurekendur með LÍÚ í broddi fylkingar, boða að þeirra ein von um bjarta framtíð sé staðfesting á eignarheimild kvóta, enda hafi útgerðarmenn lagt allt sitt líf og fjárfestingar í hann.
Það sem verkalýðsfólk þarf alltaf að muna, og minna á, er að þeir eru þátttakendur en ekki þiggjendur. Atvinnuvegir okkar og framtíðarhorfur byggjast á sameiginlegri þátttöku okkar allra, atvinnurekenda, stjórnvalda og hinna vinnandi stétta. Þetta er það mengi sem kemur okkur út úr kreppunni. Ekki staðfesting á eignaraðild kvótans.
Gömul kona fyrir norðan sagði eitt sinn, að hún hefði tekið eftir því undanfarin ár að ef hún lifði af mars þá lifði hún út árið.
Það má vonandi yfirfæra þessi orð gömlu konunnar yfir á baráttu vinnandi verkalýðs þessa dagana. Hann hefur þrátt fyrir allt lifað út árið þrátt fyrir þrengingar og efnahagshrun og ekkert hægt að gera nema að vona að svo verði áfram.
Viðurkennum og sannfærum stjórnvöld og síðast en ekki síst Okkur sjálf um að við erum þátttakendur en ekki þiggjendur í þjófélaginu. Þá fyrst getum við sannfært okkur um að við höfum vorvinda í fangið.
Takk fyrir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.