Mamma á afmæli í dag!

Hún mamma mín á afmæli í dag. Hún er fædd árið 1923 svo hún er níræð, hún frú Árilía á Brekku. Við fórum að því tilefni á hárgreiðslustofu í gær og gerðum okkur fínar. Þar sagði hún stúlkunum nokkrar sögur, auk þess sem hún spjallaði, sönglaði og skellti hressilega uppúr öðru hvoru.

Þarna var mamma eins og hún átti að sér að vera.  Hún gat alltaf „kjaftað mig til“ með frásagnargleðinni, þegar ég stóð í brú af eintómri fr.. (ákveðni) þá kunni mamma alltaf einhverja sögu sem fangaði athygli mína „ og hvað svo meira“ sagði ég og þurrkaði af mér skæluna með erminni og skreið upp í fangið á henni. Eða hún réri mér á kné sér og sönglaði söguljóð.

Alltaf hefur hún staðið með mér og hvatt mig áfram, allt frá því að ég hljóp upp stigann á 0,3, undan eldri systkinum mínum sem kannski ætluðu að lemja mig. Þá skaust ég bak við mömmu sem stóð oftast í eldhúsinu, snéri henni að ógnvaldinu og ALLTAF tók hún minn málstað, þreif af sér inniskóinn og reiddi hann upp yfir höfuð „viljið þið hypja ykkur og láta hana vera“. Þá gat ég rekið út úr mér tunguna og tosað í eyrun. Svo var málið að halda sér nærri eldhúsinu þangað til allt var fallið í ljúfa löð. Á meðan mamma söng með útvarpinu og hundurinn Kátur spangólaði undir eldhúsglugganum og lét sig dreyma um stóra sigra út í hinum stóra söngheimi hunda. 

 Mamma var ekki stundum í eldhúsinu, hún var þar oftast enda voru heimilismeðlimir oft á annan tuginn. Hún var búin að fæða tólf börn, missa tvö og ól upp tíu. Pabbi, Helgi frændi og nokkrir krakkar í sveit á sumrin. Þetta kallaði á töluvert amstur við heimilið og aldrei færri en tólf sortir fyrir jólin, hundrað iðu í súr í sláturstíðinni og loft og veggir þvegnir með tveim vötnum fyrir jólin. Fagmennska húsmæðraskólans á Ísafirði var í heiðri höfð hjá húsmóðurinni á Brekku. Pabbi passaði þó að við krakkarnir og kannski mest eldri systkini mín fengu að hjálpa til eins snemma og hægt var. Enda voru þau séð gömlu hjónin að skipta börnun jafnt eftir kyni. Fyrst komu fjórar stelpur, svo fjórir strákar og svo aftur tvær stelpur. Föðursystir mín var glöð þegar Helga Dóra systir fæddist eftir strákagerinu. „ það þarf einhver að pressa af strákunum“ sagði hún. Mamma var sammála enda fékk hún nafnið hennar Dóru frænku.

Mamma kunni ýmislegt fyrir sér, hún hafði ung farið suður í vist hjá skosku Frúnni sem kenndi henni að syngja, þar lærði hún líka ensku.  Heimurinn beið tilbúin fyrir litla söngfuglinn frá Flateyri en orð eru máttug, nokkur ljóðlínur á bréfsnifsi sem stungið er í vettling getur breytt umsnúningi jarðar. Ungi maðurinn að vestan sagðist „Dreyma um augu hennar yndisleg mær; um brjóst hennar varir og hvarma“ Þessi orð og nokkur fleiri dugðu til að fylgja honum í dalinn og vera þar með honum meðan hann lifði.

Elsku mamma mín, þegar ég valdi fallegasta orðið í íslenskri tungu þá valdi ég orðið mamma. Það er vegna þess  að mamma mín,  þessi litla kona sem aldrei hefur vaxið upp í 160 sentímetra hefur alltaf reynst mér best og ást hennar á okkur krökkunum hefur alltaf verið skilyrðislaus. Hún átti líka stóra drauma sem ung kona um að syngja í hinum stóra heimi og hafði alla hæfileika til þess. En lífshlutverkið varð annað þó aldrei með neinni eftirsjá. En hún fékk líka að syngja á sviði í nokkrum löndum, það var ekki alltaf verið að sauma sláturskeppi í þau rúm fimmtíu ár sem hún bjó á Brekku þau tækifæri fékk hún eftir miðjan aldur.

 Þótt ég sé að verða fimmtug fer ég með gleði í hjarta til mömmu sem nú dvelur á öldrunardeildinni á Ísafirði bara til að heyra „ég elska þig litla krúttið mitt“ og það er svo sannarlega gagnkvæmt.


Jólastatus

„Ég man þau jól, hinn milda frið
á mínum jólakortum bið“

Já það er nokkur bið á jólakortunum frá mér þessi jólin. Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Eitthvað fór þessi tími í annað en að skrifa og senda þau frá mér.  Til að reyna að bæta fyrir það, ætla ég að senda rafræna kveðju hér á netheimum.

Byrja á því að þakka fyrir þau jólakort sem hafa borist inn um lúguna hjá mér og ég hlakka til að lesa að lesa í kvöld.

Jólagestir og jólagleði, allt að gerast í Hlíðarstrætinu. Elli komin frá Svíþjóð með Kristínu sína og ætla að vera með okkur fram á nýárið. Frú Árilía mætt í stólinn sinn og biður um að skrúfað verði frá sjónvarpinu, þeir einir eiga rétt á hvíld frá jólaönnun sem hafa skilað af sér 10 barna jólum með fjórtán sortum og heimasaumuðum klæðum. Kristín mætir svo með fylgisveinum í kvöld en Ólína og Stefán ætla að huga að sinni fjölskyldu í henni Reykjavík og skilar sér svo aftur á annan dag jóla.

Aðfangadagur tekin snemma, útvarpið sendi öllum jólakveðjur fjær og nær, hugheilir ættingjar og margbarnabörn fá kveðju yfir hafið og fjöllin með frið og fögnuð. Á klukkutímafresti eru friðarkveðjurnar rofnar með fréttum af villuráfandi dreng sem ráfar um með alvæpni um sveitir sunnanlands í leit að friði í sinni sál, hundeltur í orðsins fyllsta. Sunnlenskur bóndi skerpir á könnunni og býður  heitt að drekka, óskandi væri að sú hlýja nái að hjartarótum þessa ógæfumanns.

fjolskyld.jpgElsku vinir og ættingjar heims um ból, okkar bestu óskir um að hátíðirnar færi ykkur gleði og fögnuð, frelsun mannanna og frelsisins lind.  

 

að æfinlega eignist þið
heiða daga, helgan jólafrið.

Þökkum skemmtilegar samverustundir og  ljúfar kveðjur megi nýja árið færa ykkur náttúrunnar jól, sem ljóma af drottins náð.

Halla Signý, Siggi Gummi og fjölskylda..

 

 

 

 


Að ala upp barn

Tímamót, vegamót. Hvenær hefur maður alið upp barn? Ól maður það upp? Launaði kálfurinn ofeldið?  Fjórðungi bregður til fósturs og Barnið vex en brókin ekki. Þegar maður hefur lokið einhverju lítur maður á verkið og metur afraksturinn. Barnið er vaxið, alið og útskrifað.

Finnbogi Dagur útskrifast sem stúdent í dag. Þá finnst mér ég hafa lokið ákveðnum áfanga. Ég er búin að ala hann upp, enda tvítugur og gengur í skóm nr. 46.

Við foreldrarnir erum ánægð með verkið. Glæsilegur og skemmtilegur strákur. Auðvelt að ala hann upp ? hummm það er nú það. Það var fjölbreytt og oftast viðburðaríkt, sjaldan erfitt en aldrei leiðinlegt. Það tók tíma að koma honum í heiminn, tók tíma að kenna honum að reima skóna, og það tók tíma að mæta í foreldraviðtöl í skólanum,

...Að ná honum niður af þakinu,

...hafa ofan af fyrir honum í kirkju

... láta hann sitja kjurran við matarborðið

.. að láta hann skilja að maður pissar ekki úti, fyrir utan búð

...að skilja að hundurinn hefur styttra líf en maðurinn

...að  kenna honum faðirvorið... eigi geym þú ost í frysti.

... að kenna honum vísuna um ömmu og afa sem bjuggu á Bakka

Það sem var fljótur að læra

... dónavísur sem hann fór svo með fyrir mömmu sína

...stærðfræði

... að hafa gaman að lífinu

...að knúsa

... að það er ekkert svo hugljúft sem hlátur er hann hljómar frá einlægri sál

... kurteisi

... og fljótur að læra við hvaða mörk mamma missti þolinmæðina

Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn. Önundarfjörður, Borgarnes og Bolungarvík. Heppinn strákur. Ömmurnar og afinn, Þura, Jóhanna og systurnar , frænkur og frændur alltaf umvafin ást og hlýju.

Skólarnir fimm, Holt, Flateyri, Ísafjörður, Borgarnes og Bolungarvík mótuðu drenginn,.  Að öðrum ólöstuðum fær Margrét á Háhóli sem kenndi honum í Borgarnesi gullið, skildi Tourettið og sveitaþrána. Margir komu líka á eftir, Sossa, Halldóra og Helga Aðalsteins, Bessa og fleiri  ,já hann hefur verið umvafin konum.  Nú segir hann skilið við Menntaskólann á Ísafirði, góðan skóla og gott fólk sem gerði í sameiningu skemmtilegan tíma.

 

Fyrir mitt leiti er ég ánægð með verkið og þakklát öllum sem komu að því.  Núna þegar ég horfi á drenginn minn finnst mér tíma mínum hafa verið vel varið og  sannfærð um að þetta allt ofantalið hafi skilað góðum einstaklingi út í samfélagið  og flyt til þín orð Guðmundar Inga.

Þú átt að vernda og verja,

þótt virðist það ekki fært

allt sem er hug þínum heilagt

og hjarta þínu kært.

 

Vonlaust getur það verið

þótt vörn þín sé djörf og traust.

En afrek í ósigrinum lífsins

er aldrei tilgangslaust.

 

Elsku Finnbogi til hamingju með daginn og útskriftina.

GIK


Bréf til þín !

Stundum horfi ég á auglýsingar í sjónvarpinu, svona á milli atriða. Ein auglýsing fær mig til að flissa. Það er auglýsing frá póstinum, þið vitið allar þessar rauðklæddu verur í beinni röð sem aldrei slitnar jafnvel að þau standa út í miðri á og selflytja böggla, þríhjól og fleira, alla leið til mín. Takk !Fallegt fólk, fallegt landslag og allir glaðir. Hvað veldur þá flissunu?

Jú þetta kemur í kjölfar síðasta hagræðingarferli póstsins. Nú það er auðvitað búið að loka útibúum t.d á Flateyri og það var líka frekari hagræðing um að ræða. Það var ný verðskrá sem inniheldur A og B leiðir með yfirskriftinni Hratt eða hagkvæmt. Ef þú velur A póst þá á bréfið að komast næsta dag til viðtakenda, en pósturinn tryggir ekki afhendingu á B pósti fyrr en eftir þrjá daga. Já já, alin upp á Ingjaldssandi var ég alveg sátt við að lesa Tímann þótt hann væri orðinn fimm daga gamall og allt var jafn nýtt fyrir mér. Bréfin voru vikugömul og ekkert sá á þeim, fréttirnar og kveðjurnar jafn indælar. En hvernig er þetta framkvæmt?

 Ég, búsett Bolungarvík, fer með bréf í póst sem á að fara hérna innanbæjar, Ég vel Hakvæmni veitir ekki af fyrir sveitasjóð, vel B-leið. Það munar sko 17 krónum á leiðunum. Hakvæmnin felst í því að þær taka við bréfinu hérna í sparisjóðnum sem sér um afgreiðslu póstsins og svo fer bréfið til Reykjavíkur með póstbílnum með tilheyrandi bensíneyðslu, umhverfismengun og fleira. Þar er bréfið flokkað og fer svo aftur til Bolungarvíkur (bensíneyðsla, umhverfismengun og fleira) Hér taka þær aftur við bréfinu í Sparisjóðnum og Hálfdán póstur tekur við því og ber það út, gangandi J.

 Þegar ég horfi á þessa fyrrnefndu auglýsingu, trúi ég því alveg að allar þessar hendur hafi handleikið bréfið mitt , sem ég sendi á stað. Það sem er svo mikilvægt í þessari hagræðingu er að þessar hendur verða að vera í Reykjavík, ekki Flateyri eða Bolungarvík.

Hakvæmni?.. ég spyr mig,

 það eru alveg sjö ár síðan ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur, margt breyst greinilega.  Ég er sannfærð um að þessar 103 krónur duga ekki að dekka allan kostnaðinn, bæði óbeinan og beinan af þessu bréfi mínu.Tek það fram að starfsfólk sparisjóðsins hérna væri alveg til í að rétta bara Hálfdáni bréfið svo hann geti skokkað með það beina leið, en þeim er skylt að gera þetta svona.

Hratt eða hagkvæmt, það er efinn.


Saklausa sveitastúlkan

Þegar ég var í henni Reykjavík um daginn, brá ég mér á kaffihús með vinkonu minni Ylfu Mist. Fátt finnst okkur skemmtilegra en að sötra gott kaffi og fara yfir staðreyndir lífsins á þar til gerðum veitingastað.

Nú nú, við vorum á leið niður Laugarveginn þá blasti við okkur lítið sætt kaffihús. Litli bóndabærinn, nánar tiltekið á Laugarvegi 41. Þetta leit allt ljómandi vel út, Organic, Fair trade og beint frá býli stóð í glugganum. Hvað gerist betra  en að fari saman sanngjörn viðskipti og lífrænt og ég tali nú ekki um að það sé hægt að rekja upprunann? Við vinkonurnar vorum líka tilbúnar til að bjarga heiminum svo við fórum inn.

Þegar inn kom lofaði allt góðu, tvær stúlkur voru við afgreiðsluborðið, allt svo ljómandi fallegt þarna, reyndar bara einn sófi til að sitja á og svo var hægt að sitja við afgreiðsluborðið.Það eina sem var á boðstólum var súkkulaðikaka annað ekki, en við okkur blasti inn í eldhúsi svona ljómandi girnilegar muffins. Nei það var ekki í boði, þær voru að baka þetta fyrir annað kaffihús.

Jæja, Ylfa bað um súkkulaðiköku og latte og að sjálfsögðu rjóma með kökunni. Nei rjómi var ekki til, það væri svo lítið beðið um hann og svo bara stæði kakan alveg sjálf undir bragði það væri ekkert við það að bæta...  Ylfa reyndi nú að halda því fram að  rjóma væri aldrei ofaukið.. en gafst svo upp að sjálfsögðu annað var ókurteisi.Þá var komið að mér að panta, ég ætlaði að fá súkkulaðiköku og venjulegt kaffi ! „Venjulegt kaffi“ sagði stúlkan stóreygð hvað meinaru? Nú bara svona uppáhellt sagði ég . Nei því miður þau voru ekki með uppáhellt bara svona vél, svaraði hún og benti á stærðar kaffivél sem fyllti út í hálft afgreiðslusvæðið. Auðvitað gaf ég mig (enda vel upp alin) og áréttaði að ég vildi bara fá svona venjulegt kaffi..„þú verður að útskýra það betur hvað þú meinar með venjulegu kaffi“ sagði unga afgreiðslustúlkan. Nú var ég komin í bobba, hvernig átti ég að útskýra venjulegt kaffi? Langi mest að fá bara vatnssopa hann hlyti nú að vera til í venjulegu formi. EN hin siglda Ylfa Mist bjargaði mér og sagði:  þið verðið að afsaka þessa hún er nefnilega frá Ingjaldssandi láttu hana fá americanó kaffi. Stúlkunni létti augsjáanlega við þetta og við settumst og biðum eftir því sem verða vildi.

Ekki stóð á afgreiðunni og hún kom með til okkar súkkulaðikökurnar, Ylfa fékk Latte og ég fékk smá kaffisopa sem huldi botninn á bollanum ca einn og hálfan desílítra eða svo. Heyrðu.. sagði ég... áttu ekki soja mjólk? (er svona að spara við mig mjólkurvörur út af slæmsku í ristli). Hún horfði á mig skelkuð og sagði : Nei við höfum tekið meðvitaða ákvörðum um að selja ekki Soja, hún hefur svo slæm áhrif á líkamann, gerir börn ófrjó og eykur estrógen í líkamanum og fleira taldi hún upp um óhollustu soja.. ok ,sagði ég og strauk á mér búkonuhárin á hökunni, takk ég er nú svo full af testesterón svo mér veitti ekki að soja. En sá svo aðmér, varð að láta í minnipokann og þáði kúamjólk sem hún sagði að væri sko gerilsneidd hægt og kæmi beint frá býli auðvitað. Gerilsneydd hægt, ekki vildi ég spyrja frekar út í það, Er hún frá Hálsi í Kjós? spurði sveitastúlkan saklausa frá Ingjaldssandi. Það hafði hún ekki hugmynd um, hélt sjálfsagt að ég væri að gera grín af sér.

Er þetta koffinlaust kaffi? Hélt ég áfram ég í einfeldleika mínum, vildi bara svona spjalla. Nú fór fróðleiksfúsa afgreiðslustúlkan á flug. Nei ekki var það koffínlaust en þetta var ljós brennt kaffi og sýndi mér muninn á bragðinu á ljósbrenndu og dökkbrenndu kaffi með því að rétta fram handleggina og myndi bil með höndunum. Sem sagt bragðið af dökkristuðu kaffi er svona þröngt líkalega ca 10 cm... eftir því sem þær sögðu,. Fleiri fróðleiksmolar hrundu af vörum hennar sem ég náði ekki.

Þetta þótti mér athyglisvert og dró ekki eitt orð í efa. En nú var svo komið að ég var búin með þessa tvo sopa af kaffinu, sem bragðaðist alveg ljómandi. Þá spurði ég um ábót... Nei því miður, það var ekki hægt. Það væri nefnilega bara seldur einn drykkur í einu og ef ég ætlaði að kaupa annan drykk þá yrði ég að borga hann sér,, 450 krónur takk fyrir.. já já  fair trade (sanngjörn viðskipti) eða þannig.Þegar hér var komið við sögu vorum við alveg búnar að gefast upp vinkonurnar og flýttum okkur út, ég laumaði því nú útúr mér að ég hafði aldrei komið á bóndabæ sem ég hefði fengið svona naumt skammtað kaffi. Sagði þetta auðvitað ekkert upphátt bara læddi því svona í búkonuhárin.

Þegar ég labbaði út þá var ég alveg sannfærð um að eina sem væri beint frá býli á þessu kaffihúsi væri ég. Saklausa sveitastelpan frá Ingjaldssandi. En við Ylfa gátum hlegið af þessu alveg niður að Lækjartorgi.    


Fólk í fjörð !

 


Bæði á vefmiðli MBL og útvarpinu má heyra auglýsingar og fréttatilkynningar um að það verði haldin kynning fyrir  landann í Hörpu 16 okt nk, þar sem verður kynning á störfum sem bjóðast í sveitarfélaginu Sunndal í Noregi.

Sem sagt norðmenn eru hingað komnir að smala, rétt eins og bændur og búalið eru að gera um þessar mundir hér heima. Það er gefin út fjallskilaseðill og gangnaseðlar og svo er farið á fjall og ef ekki gengur nógu vel þá verða eftirleitir þangað til allir eru búnir að fá sitt fé.

Fjallskilaseðill Norðmanna er gefinn út á mbl og Rúv og afrétturinn er landið allt, fyrst eru heimahagarnir Reykjavík smalaðir svona eins og gengur. Fjárréttin er okkar flotta, dýra, ógreidda glæsihýsi okkar Íslendinga í Reykjavík, Harpan. Ég verð að viðurkenna ég tek ofan fyrir nágrönnum okkar og frændum í austri. Þetta er sniðugt, þeir vita hvar mannauð er að finna og þangað skal leita. Auðvitað.

Sunndal er sveitarfélag sem er í mið-Noregi, svipað að landstærð og Vestfirðir fjöldinn er svipaður og á Vestfjörðum, rétt rúmlega 7000 manns. Þegar maður fer inn á heimasvæði Sunndals langar manni bara til að stökkva. Mannlíf, landslag, menningarlíf allt með blóma. Það vantar bara fólk.  Við leitum til Íslands því okkur sárvantar fleira fólk úr vissum mikilvægum starfsstéttum til starfa hjá okkur en fólk með þessa menntun er ekki á lausu í Noregi,“ segir Ståle Refstie, bæjarstjóri í Sunndal, í fréttatilkynningunni.

Svona rétt áður en ég stekk á stað og næ í ferðatöskuna og pappakassann þá fer ég að hugsa. Já, þetta er nú eitthvað sem ég kannast við. Sunndal vs Vestfirðir ? Ég bý á Vestfjörðum þar er 7000 manna samfélag, landslagið frábært, náttúran falleg, ógnandi og gefandi í senn. Menningalíf afskaplega blómlegt, mannauður nægur, félagsauðurinn flæðir um dali og fjöll. Atvinnulífið, ja kannski ekki alveg nægjanlegt, en tækifærin eru hér sem víða og með samstilltu átaki er margt hægt. (í morgun var viðtal á rúv við lærðan leikara sem hefur 100% vinnu sem leikari og hann býr í 320 manna samfélagið í Súgundafirði)  hvað er það?  En..... okkur vantar fólk. Af hverju er sveitarfélagið Sunndal að smala fólki, af hverju fór fólkið þaðan? Af hverju eru Norðmenn ekki þar heldur en að hrúgast allir í höfuðborgarsvæðið?

Af hverju förum við ekki út á mörkina og breiðum út boðskapinn? Fáum til þess Hörpuna, Laugardalshöllina, Alþingi, fjölmiðlana og síðast en ekki síst okkur sjálf.  Það eru lífsgæði að búa á Vestfjörðum.  Vestfirðingar  góðir við verðum að fara gefa út fjallskilaseðill þetta er árstíminn sem við notum til að hamstra, mjólk í mat og ull í fat. Við förum við í herferðina FÓLK í FJÖRÐ.

Koma svo !!!

 

 

 

 


Pistill fluttur á 1. maí á Ísafirði


Vorið kom hlæjandi
hlaupandi
niður hlíðina vestan megin.
Engri sjón hef ég orðið jafn bundinn
og alls hugar feginn.

Ég tók það í fang
og festi mér það
sem fegurst og best ég þekki.
Mánuður leið,
mannsaldur leið,
og ég missti það ekki.

Góðan daginn og gleðilega hátíð.

Ljóðlínurnar sem ég las urðu Guðmundi Inga skáldi að orði í upphafi sjötta áratugarins. Hann var ekki endilega að tala um árstíðina heldur að hann hefði fest sér konu sem komið með vorið í fang hans, enda 18 árum yngri.

Rót kom á huga minn í gær þegar ég sat hérna í þessum sal,- á frábærri og tímabærri ráðstefnu um tækifæri, aðstæður og samkeppni fyrirtækja á Vestfjörðum. Ég stakk mér hér inn úr vorviðrinu fyrir utan til að hlíða á áhugaverða fyrirlestra. Þegar ég fór út var ég ekki viss hvort ég var með vorið í fangið, haustið eða hreinlega vetrarhörkur vestfirskrar búsetuframtíðar.

Vestfirðir hafa verið byggðir frá landnámi, af duglegu, sterku og bjargálna fólki. Allt fram á þennan dag höfum við verið sjálfum okkur nóg um það að hafa í okkur og á.

En tölur tala sínu máli, fólksflótti er staðreynd og ekkert þýðir að stinga hausnum í sandinn og neita að horfa á staðreyndir. Við höfum alltaf getað státað okkur af litlu atvinnuleysi en það hefur auðvitað verið á kostnað þess að fólk hefur tekið sig upp og flutt í burtu í leit að atvinnu, námi og þá í framhaldinu, vinnu sem hæfði menntun fólks.
En eigum við þá ekki bara að fara að dæmi Grunnvíkinga þegar þeir ákváðu á einum fundi að hætta þessu veseni hætta búsetu á svæðinu og flytja burt en hvurt? Er nóg að fara? Er grasið svona grænt hinu megin að allir hafi þar nóg?

Það kom fram í gær, í framsögu Vífils Karlsonar hagfræðings að við, - landsbyggðin værum að leggja meira til þjóðarkökunnar heldur en við neyttum af henni. Við værum að afla ca. 27% (prósenta) af tekjum ríkisins en ríkið væri að eyða 15% þeirra í samneyslu á landsbyggðinni. Þetta styrkir okkur í þeirri trú að við erum ekki bara þiggjendur í samneyslunni heldur gefendur. Sælla er að gefa en þiggja.

En við megum ekki festast í þeirri sjálfsumgleði, heldur verðum við að einblína á það að við Vestfirðingar erum Þátttakendur. Fullkomnir þátttakendur í samfélaginu. Meðan svo er þá erum við fullkomlega fær um að snúa þessari byggðaþróun við eða alla vega, að reisa varnarmúr gegn frekari hnignun. Ég held það geti verið hluti af vandanum að við höfum verið sannfærð um að partur af þessu öllu sé, að það er búið að koma því inn í undirmeðvitund okkar að við séum dragbítar og þurfalingar á vaxtasvæðum landsins og að við stöndum framförum og hagvexti þjóðarinnar hreinlega fyrir þrifum.

Fyrir 40 árum náðist sá sigur í áratugabaráttu íslendinga að fá handritin heim. Nú ættu Vestfirðingar að hefja sameiginlega baráttu að fá störfin heim aftur, þau störf sem hafa flust burt og líka þau störf sem verða til fyrir tilstuðlan þess opinberra en ná aldrei lengra en 70 kílómetra radíus frá Reykjavík

Dagurinn í dag er helgaður vinnandi stéttum eða verkalýðnum. Barátta þeirra í gegnum tíðina fyrir tilveru sinni er ekkert ósvipað og okkar vestfirðinga. Atvinnurekendur líta á hina vinnandi stétt sem þiggjendur og sig sjálfa sem gefendur. Þetta hefur fengið byr undir báða vængi undanfarna vikur í samningaferlinu. Kröfur stéttarfélaganna eru „ónáttúrulegar“ og skilningur þeirra enginn á vel varðan veg þjóðarinnar í gegnum kreppuna. Allar launakröfur eru, að mati atvinnurekenda, til þess að leggja stein í þá beinu götu og það eina sem þarf að hnykkja á, er að staðfesta eignaraðild þessara fáeinu á auðlindum þjóðarinnar.

Atvinnurekendur með LÍÚ í broddi fylkingar, boða að þeirra ein von um bjarta framtíð sé staðfesting á eignarheimild kvóta, enda hafi útgerðarmenn lagt allt sitt líf og fjárfestingar í hann.
Það sem verkalýðsfólk þarf alltaf að muna, og minna á, er að þeir eru þátttakendur en ekki þiggjendur. Atvinnuvegir okkar og framtíðarhorfur byggjast á sameiginlegri þátttöku okkar allra, atvinnurekenda, stjórnvalda og hinna vinnandi stétta. Þetta er það mengi sem kemur okkur út úr kreppunni. Ekki staðfesting á eignaraðild kvótans.

Gömul kona fyrir norðan sagði eitt sinn, að hún hefði tekið eftir því undanfarin ár að ef hún lifði af mars þá lifði hún út árið.

Það má vonandi yfirfæra þessi orð gömlu konunnar yfir á baráttu vinnandi verkalýðs þessa dagana. Hann hefur þrátt fyrir allt lifað út árið þrátt fyrir þrengingar og efnahagshrun og ekkert hægt að gera nema að vona að svo verði áfram.

Viðurkennum og sannfærum stjórnvöld og síðast en ekki síst Okkur sjálf um að við erum þátttakendur en ekki þiggjendur í þjófélaginu. Þá fyrst getum við sannfært okkur um að við höfum vorvinda í fangið.

Takk fyrir.


Maístjarna

Ó hve létt er þitt skóhljóð
ó hve leingi ég beið þín,
það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín,
en ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín,
og nú loks ertu komin,
þú ert komin til mín.

Það eru erfiðir tímar,
það er atvinnuþref,
ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef,
nema von mína og líf mitt
hvort ég vaki eða sef,
þetta eitt sem þú gafst mér
það er alt sem ég hef.

En í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands,
fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Texti: Halldór K. Laxness



Gleðilegt sumar

Sunnan yfir sæinn breiða
sumarylinn vindar leiða
- draumalandið himinheiða
hlær og opnar skautið sitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

A a ...
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Gakk þú út í græna lundinn,
gáðu fram á bláu sundin
- mundu að það er stutt hver stundin
stopult jarðneskt yndið þitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

A a ...
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Allt hið liðna er ljúft að geyma,
láta sig í vöku dreyma.
Sólskinsdögum síst má gleyma
- segðu engum manni hitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

A a ...
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Jóhannes úr Kötlum

menntun er máttur

Það er grundvallarmannréttindi hvers og eins að njóta jafnra tækifæra til menntunar, óháð efnahag og búsetu. Nú á tímum óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar skiptir miklu máli að styrkja stoðir menntunar í landinu. Menntun í heimabyggð er eitt að grundvallar atriðum þegar fólk velur sér búsetu, menntun á öllum skólastigum og aðgang að símenntun í starfi. Aðgangur að háskóla eða háskólasetri í hverjum landshluta skiptir þar miklu máli. Háskólamenntun gegnir lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar og þróun atvinnulífs og öll menntun er driffjöður framþróunar og þannig er lagður grunnur að framtíðarhagvexti þjóðarinnar. Auk þess sem heilbrigt samfélag dafnar og þroskast í nánd við allar menntastofnanir og það eykur samkeppnishæfni svæða sem hafa yfir að ráða öflugum menntastofnunum.
Því skiptir það miklu máli að menntastofnunum sé tryggt áframhaldandi fjármagn til að starfa.
Á undanförnum árum höfum við fylgst með uppbyggingu háskóla og háskólasetra í kjördæminu og fengið að fylgjast með hversu jákvæð áhrif slíkt hefur á samfélagið í kring. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á byggðamál og bent á þá sjálfsögðu staðreynd að það sé landi og lýð til heilla að öllum séu boðin jöfn búsetuskilyrði. Þar spila mennta og velferðarmál stóru lykilhlutverki. Framsóknarflokkurinn vill leggja aukna áherslu á háskólakennslu á landsbyggðinni með áherlsu á að sérstöðu hérðanna verði nýtt í sérgreiningu.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er í 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í NV- kjördæmi


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband